Stjórnvöld hafa tvo mánuði til að bregðast við

Stjórnvöld á Íslandi hafa tvo mánuði til að koma sjónarmiðum …
Stjórnvöld á Íslandi hafa tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ESA ákveður hvort fara skuli með málið lengra. Ljósmynd/Colourbox

Löggjöf um leigubifreiðar á Íslandi brjóta enn gegn EES-reglum, þrátt fyrir að breytingar hafi verið gerðar til að gera erlendum fyrirtækjum kleift að hefja starfsemi hér á landi.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) krefst þess að íslensk löggjöf um leigubifreiðar virði reglur um staðfesturétt og hafa stjórnvöld nú tvo mánuði til að bregðast við.

ESA sendi í dag íslenskum stjórnvöldum formlegt áminningarbréf til viðbótar fyrra áminningarbréfi fyrir að virða ekki EES-reglur um staðfesturétt á leigubifreiðamarkaðinum.

Málið á rætur að rekja til ársins 2017, þegar ESA komst að þeirri niðurstöðu að löggjöf um leigubifreiðar á Íslandi takmarkaði úthlutun atvinnuleyfa fyrir leigubifreiðaakstur á ákveðnum svæðum.

ESA taldi að löggjöfin hefði gert nýjum rekstraraðilum erfitt að komast inn á markaðinn og hefja starfsemi í atvinnugreininni. Í lögunum var einnig gert ráð fyrir að leyfishafar væru tengdir leigubifreiðastöð og hefðu leigubílaakstur sem meginatvinnu.

Lögum breytt 2022

Í formlegu áminningarbréfi sínu og rökstuddu áliti, sem send voru í janúar og nóvember 2021, komst ESA að þeirri niðurstöðu að umrædd löggjöf fæli í sér óréttmæta takmörkun á staðfesturétti og bryti því í bága við EES-samninginn.

Í kjölfarið samþykktu íslensk stjórnvöld nýja löggjöf um leigubifreiðaakstur í desember 2022 sem öðlaðist gildi í apríl 2023. Á þeim tíma mótmæltu leigubílstjórar frumvarpinu, vegna áhyggna um að það myndi ryðja veg fyrir tæknirisa eins og Uber og Lyft inn á íslenskan leigubílamarkað.

Nýju lögin afnema fjöldatakmörk atvinnuleyfa og leyfishafar eru ekki lengur krafðir um að hafa leigubílaakstur sem meginatvinnu. Breytingar voru einnig gerðar á kröfunni er varðar leigubifreiðastöðvar. 

Með þeim breytingum brugðust íslensk yfirvöld við nokkrum af athugasemdum ESA en ekki öllum.

Leigubíll frá Uber.
Leigubíll frá Uber. AFP

Fá frest til tveggja mánaða

Löggjöfin sem var samþykkt 2022 gerir nefninlega ekki almenna kröfu til bílstjóra um að vera tengdir leigubifreiðastöð eða hafa slíkt leyfi til viðbótar við atvinnuleyfi sitt, að mati ESA.

Íslensk stjórnvöld hafi þannig ekki sett fram nægileg rök sem réttlæti þessa skerðingu eða hvernig nýju lögunum sé ætlað að stuðla að markmiðinu um öruggi og gæði í leigubílaþjónustu.

ESA telur að nýja löggjöfin feli enn í sér óréttmæta takmörkun á staðfesturétti. Að auki telur stofnunin að reglurnar um leigubifreiðastöðvar leiði til tvöföldunar á eftirliti, sem sé ekki í samræmi við ákvæði EES-samningsins um fjórfrelsið.

Stjórnvöld á Íslandi hafa nú tvo mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ESA ákveður hvort fara skuli með málið lengra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK