Heimatilbúnar sprengjur líklegasta orsökin

Háværir hvellir hafa heyrst víða á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga.
Háværir hvellir hafa heyrst víða á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga. mbl.is/Sigurður Bogi

Nokkuð hef­ur borið á því að háværir hvellir hafi heyrst á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur líklegast að um sé að ræða heimatilbúnar sprengjur en engin ummerki eftir sprengjurnar hafa fundist. 

Hvellir heyrst um allt höfuðborgarsvæðið

Í gærkvöldi heyrðist hávær hvellur í Garðabæ og víðar rétt eftir miðnætti. Þá var þó nokkur fjöldi íbúa í Hlíðunum sem heyrði hvell sem líktist sprengingu í hverfinu í fyrradag.

Á sunnudag heyrðist einnig hávær hvellur víða um höfuðborgarsvæðið. Rætt var um sprengingu á íbúahópi í Lindahverfi og virðist sem hvellurinn gæti hafa átt uppruna sinn þar.

mbl.is hafði samband við lögregluna og slökkviliðið eftir að ábendingar um hvellina bárust en lítið var vitað um málið þá. 

Heimatilbúnar sprengjur úr flugeldum

Þóra Jónasdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is í dag að allt bendi til þess að verið sé að sprengja heimatilbúnar sprengjur, sem eru mögulega gerðar úr flugeldum.

Þá segir hún að þegar farið er með sprengjuna í undirgöng geti hvellurinn magnast mjög.

Lögreglunni hafi borist eitthvað af ábendingum síðustu daga varðandi hvellina. Þá hafi sést til ungra drengja hlaupa úr undirgöngum þegar sprenging var í hlíðunum í fyrradag. 

Erfitt hefur verið að rannsaka málið betur en oftast hefur ekkert verið að sjá á svæðinu og engin brunalykt. 

Að lokum bendir Þóra á að heimatilbúnar sprengjur séu mjög varasamar og hvetur hún fólk til að hringja í lögregluna ef það heyrir hvell eða sér ummerki um sprengingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert