Íslendingar vilja ekki þiggja störfin

Ljósmynd/Colourbox

Fulltrúi dekkjaverkstæðis í Reykjavík segir Íslendinga hætta að nenna að vinna erfiða líkamlega vinnu. Það hafi birst fyrirtækinu þegar það auglýsti á dögunum laus störf í aðdraganda vertíðarinnar fram undan þegar vetrardekkin víkja. Alls hafi 60 umsóknir borist og þar af um helmingur frá Íslendingum.

Vilja ekkert leggja á sig

„Hér um bil helmingurinn sem sótti um var Íslendingar. Svo þegar þeir koma á staðinn eru þeir ekki tilbúnir að vinna vinnuna. Málið er bara að Íslendingar eru almennt orðnir latir til vinnu. Ég ætla bara að segja það hreint út. Þetta er erfiðisvinna og þeir eru yfirleitt ekki tilbúnir að gera neitt sem er erfitt. Pólverjarnir og flestir aðrir eru yfirleitt komnir til að vinna og eru tilbúnir að gera hvað sem er,“ sagði maðurinn sem vildi ekki koma fram undir nafni. En Morgunblaðið hafði fengið ábendingu um málið og að góðar tekjur væru á vertíðinni.

„Það er fullt af fólki sem sækir um sem á ekkert erindi í þessa vinnu. Við fáum jafnvel umsóknir frá erlendum ríkisborgurum sem búa jafnvel erlendis og eru ekki komnir með íslenska kennitölu. Þeir sækja um allt,“ sagði maðurinn á verkstæðinu.

„Þegar Íslendingarnir eru búnir að prófa vinnuna þá fara þeir jafnvel í burtu. Gefast upp. Hverfa. Íslendingar eru ekki jafn vinnuglaðir og þeir voru. Það er á tæru. Það sem skiptir þá mestu máli í dag er hvað þeir fá mikil fríðindi og svoleiðis en ekki hvort þeir þurfa að vinna.“

Verktaki sem Morgunblaðið ræddi við hafði sömu sögu að segja. Hann væri með um 150 manns í vinnu við líkamleg störf en í þeim hópi væri ekki einasti Íslendingur.

„Ég þoli ekki þetta aumingjauppeldi sem er í dag. Menn láta sig hverfa í veikindaleyfi og kalla það kulnun. Það er því orðið erfitt að fá fólk í vinnu. Ég er með marga útlendinga því að það er ekkert væl þar,“ sagði verktakinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert