Brynjar vann veðmálið gegn Kolbrúnu

Í Spursmálum upplýsir Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, að hún hafi tapað veðmáli gegn Brynjari Níelssyni, fyrrum alþingismanni. Greiðir hún skuld sína í þættinum.

Orðaskiptin sem urðu í tengslum við afhendingu forláta rauðvínsflösku fylgja hér á eftir:

Gleðst yfir því að tapa

„Ef ég vinn veðmálið þá fæ ég rauðvínsflösku eða eitthvað. En ef ég tapa þá gleðst ég yfir því að hafa haft rangt fyrir mér.“

Á fólk að gleðjast yfir því að hafa rangt fyrir sér?

„Já. Ég var nefnilega sannfærð um að hún myndi ekki fara í forsetaframboð. Ég hélt hún væri svona einstæða móðirin með litla barnið sitt sem segði. Ég get ekki farið. Það er enginn til að sjá um þetta barn. En svo hef ég áttað mig á því að stundum er það í lífi kvenna að þær verða bara að fara til að finna sjálfa sig.“

Ríkisstjórnin á upptökuheimili?

Nú er þetta barn komið á upptökuheimili hjá Bjarna Benediktssyni.

„Já. En semsagt. Hérna er rauðvínið Brynjar minn. Það kostaði rúmar 4.000 krónur sem var upphæðin sem var samið um. Það eina er að þetta er mjög elegant rauðvín, sem passar þér kannski ekki alveg. En þú kannski gefur henni Soffíu með þér,“ segir Kolbrún.

Brynjar bregst þá strax við og segir: „Ég er nú að reyna að halda henni edrú.“

Kolbrún veðjaði við Brynjar í janúar og var hún þá …
Kolbrún veðjaði við Brynjar í janúar og var hún þá sannfærð um að Katrín Jakobsdóttir færi ekki fram. mbl.is/María Matthíasdóttir

En Brynjar, þú hefur verið svolítið verið að veðja að undanförnu og þetta hefur reynst þér talsvert uppgrip.

„Já ég ákvað að byrja þessi veðmál strax í janúar þegar enginn hélt að hún myndi fara fram því að hún þyrfti að bjarga þjóðinni og vera forsætisráðherra. En ég vissi alltaf að hún myndi fara fram og ég get eiginlega opnað verslun,“ segir Brynjar.

Þú getur farið í samkeppni við Sante og fleiri. En þú varst búinn að spá því í janúar en ég veit að þú hefur haldið því fram að hún hafi stefnt að þessu leynt og ljóst lengur.

„Ég held að hún hafi stefnt að þessu frá því að hún var unglingur, það er mitt mat, eða ung kona. En ég held að vísu að hún hafi ekki gert ráð fyrir að Guðni færi fyrr en eftir fjögur ár. En það er now or never eins og maður segir á útlensku og þá að hún hafi stokkið til,“ segir Brynjar.

Viðtalið við Kolbrúnu og Brynjar má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert