Sr. Guðrún nýr biskup

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir kjörinn biskup Íslands.
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir kjörinn biskup Íslands. Ljósmynd/Anna Kristín Óskarsdóttir

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir var kjörin biskup Íslands. 

Síðari umferð biskupskosninganna lauk á hádegi í dag og hlaut Guðrún flest atkvæði, 1.060 eða 52,19%. Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson fékk 954 atkvæði eða 46,97%. Kjörsókn var 88,85% en á kjörskrá voru 2.286, 166 prestar og djáknar og 2.119 leikmenn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá kirkjunni

Sr. Guðrún verður vígð í Hallgrímskirkju 1. september

Sr. Guðrún fæddist 27. apríl árið 1969 í Reykjavík og eru foreldrar hennar Karl Magnús Kristjánsson og Helga Einarsdóttir. Eiginmaður sr. Guðrúnar er Einar Örn Sveinbjörnsson og eiga þau tvær dætur og tvær dótturdætur.

Guðrún varð stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1992 og lauk BA-prófi í guðfræði frá Háskóla Íslands haustið 1998 og cand. theol.-gráðu frá sama skóla árið 2000. Hún hafði umsjón með barnastarfi við Árbæjarkirkju og var æskulýðsfulltrúi við Akraneskirkju og Grafarvogskirkju 1999-2000.

Auk þess sinnti hún ýmsum störfum í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu með námi svo sem í Hjallakirkju og Seltjarnarneskirkju og sá um leikjanámskeið í Reykjavíkurprófastsdæmum og hafði umsjón með fermingarbarnanámskeiðum í Skálholti og Gautaborg.

Sr. Guðrún verður vígð í Hallgrímskirkju sunnudaginn 1. september.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert