Umfjöllun um klæðnað kvenkyns frambjóðenda „óskiljanleg“

María Kristín Guðjónsdóttir, formaður UAK, stýrði umræðum með kvenkyns frambjóðendunum.
María Kristín Guðjónsdóttir, formaður UAK, stýrði umræðum með kvenkyns frambjóðendunum. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Allir sex kvenkyns frambjóðendurnir til embættis forseta Íslands tóku þátt í viðburði Ungra athafnakvenna í Tjarnarbíói í gær.

Til umræðu á viðburðinum var m.a. hlutverk og ábyrgð fjölmiðla í umfjöllun um forsetaframboðin og mikilvægi þess að gæta jafnrar umræðu og spurninga til frambjóðenda, óháð kyni og aldri.

Gafst félagskonum UAK tækifæri til að kynnast frambjóðendunum betur, spyrja þær spurninga og heyra þeirra helstu áherslumál en rúmlega 200 sóttu viðburðinn. María Kristín Guðjónsdóttir, formaður UAK stýrði pallborðsumræðum. 

Helga Þórisdóttir, Halla Tómasdóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir að umræðum …
Helga Þórisdóttir, Halla Tómasdóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir að umræðum loknum. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Benda á umfjöllun um bleika jakkann

Kváðust allir sex frambjóðendur hafa upplifað skakka umfjöllun á ummælum og/eða aðstæðum sem hafi verið teknar úr samhengi eingöngu til þess að ýta undir æsifréttamennsku. 

Stjórn UAK tekur undir þessa umræðu og bendir sem dæmi á frétt um bleikan jakka Höllu Tómasdóttur.

Ásdís Rán Gunnarsdóttir, Halla Hrund Logadóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.
Ásdís Rán Gunnarsdóttir, Halla Hrund Logadóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Ljósmynd/Gunnhildur Lind

Umfjöllum um öll kyn

„Það er óskiljanlegt að enn í dag, árið 2024 er verið að fjalla um klæðaburð kvenmanna, ef það er áhugi fyrir því að um fjalla klæðaburð þarf sú umfjöllun að ná yfir öll kyn,“ er haft eftir Aðalheiði Júlírós Óskarsdóttur, samskiptastjóra UAK, í tilkynningu.

Viðburðurinn var upphitun fyrir árlega ráðstefnu félagsins, UAK í 10 ár – Drifkraftur breytinga sem verður haldin í Hörpu 11. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert