Ákærð fyrir að hafa stolið frá grunnskóla

Grunnskólinn á Þórshöfn þar sem fjárdrátturinn átti sér stað.
Grunnskólinn á Þórshöfn þar sem fjárdrátturinn átti sér stað. mbl.is/Líney

Fyrrverandi skólastýra grunnskólans á Þórshöfn hefur verið ákærð af héraðssaksóknara vegna tæplega níu milljóna króna fjárdráttar.

Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Þórshafnar, segir í samtali við mbl.is málið hafa haft mikil áhrif á kennara, starfsmenn og rekstur grunnskólans en að þó hafi skólastörf haldið sínu striki.

Hann segir að þetta sé lítið sveitarfélag og því hafi fjárdrátturinn hvílt þungt á fólki.

Í ákærunni kemur fram að þáverandi skólastýran hafi verið með prókúru fyrir reikning skólans og reikning félagsmiðstöðvarinnar Svarthold. Hún er sögð hafa millifært pening af báðum reikningunum yfir á sjálfa sig í óleyfi og eigin þágu yfir rúmlega þriggja ára tímabil.

Samtals er hún sögð hafa stolið um 8,6 milljónum króna

Alls 74 millifærslur

Í frétt hjá RÚV kemur fram að alls hafi verið 74 færslur, tíu frá félagsmiðstöðinni en 64 frá skólanum. Þó höfðu sex færslur verið tengdar skólanum og eru þær því dregnar frá í ákærunni. Nemendur í félagsmiðstöðinni höfðu verið að safna í ferðasjóð.

Fjárdrátturinn er sagður hafa átt sér stað á milli október 2016 og mars 2020 áður en konan sagði af sér. Skólastýran sem tók við af henni tók eftir millifærslunum og tilkynnti þær til þáverandi sveitastjóra.

Brot sem héraðssaksóknari ákærir konuna fyrir gætu leitt af sér allt að níu ára fangelsisvist eins og kemur fram í frétt hjá RÚV. Einnig er krafist þess að konan endurgreiði skólanum og félagsmiðstöðinni ásamt því að greiða málskostnað þeirra.

Í samtali við sveitarstjóra Þórshafnar kemur fram að hún hafi ekki greitt neitt til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert