Leggja frambjóðendum og fjölmiðlum línurnar

Samráðshópur hefur sent út leiðbeiningar til frambjóðenda og fjölmiðla í …
Samráðshópur hefur sent út leiðbeiningar til frambjóðenda og fjölmiðla í aðdraganda kosninganna. Samsett mynd.

Fjölmiðlanefnd hefur gefið út leiðbeiningar fyrir forsetaframbjóðendur í aðdraganda forsetakosninganna. Í þeim er meðal annars vikið að hlutverki fjölmiðla í aðdraganda kosninga og þeir hvattir til að gæta að hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni. 

Aðspurð segir Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar að þetta þýði ekki að nefndin fylgist með hlutlægni fréttaflutnings að eigin frumkvæði. Heldur sé verið að vísa til 26. greinar fjölmiðlalaga um lýðræðislegar grundvallarreglur. Þar segir að fjölmiðlaveitu beri að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmi í fréttum og fréttatengdu efni.

„Það þarf að berast kvörtun frá almenningi eða öðrum forsetaframbjóðanda. Þetta er aldrei skoðað að frumkvæði Fjölmiðlanefndar. Ef kvörtun berst sem byggir er á 26. greininni þá þurfa að fylgja því rök hvers vegna kvörtunin er borin upp og um hvaða frétt eða fréttaefni er að ræða,“ segir Elfa.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar.
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar.

Verjast óæskilegum áhrifum 

Leiðbeiningar til forsetaframbjóðenda eru unnar af samráðshópi sem í sitja fulltrúar Fjölmiðlanefndar, Persónuverndar og Fjarskiptastofu í samstarfi við landskjörstjórn og ríkislögreglustjóra.

Hann var settur á laggirnar árið 2021 í kjölfar athugasemdar Persónuverndar til dómsmálaráðuneytisins. Er tilgangur hópsins að verjast óæskilegum utanaðkomandi áhrifum á niðurstöður kosninga.

Meðal annars er þess getið að hægt sé að sekta frambjóðendur ef ekki kemur skýrt fram að um auglýsingu fyrir þá sé að ræða. 

Af og frá að höfð verði afskipti af fjölmiðlum 

Athygli vekur hlutur embættis ríkislögreglustjóra í hópnum. 

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, segir að hlutverk embættisins sé fyrst og fremst að skoða hvort upplýsingaóreiða eða erlend áhrif hafi áhrif á kosningarnar.

Þá segir hann það vera af og frá að ríkislögreglustjóri muni grípa inn í fréttaumfjöllun innlendra miðla. Nefnir hann t.a.m. falsfréttir og áhrif gervigreindar sem dæmi um viðfangsefni greiningardeildar í þessu samhengi.

Erlendis séu dæmi um að fölsuð viðtöl við stjórnmálamenn hafi birst þar sem notast var við gervigreind til að herma eftir rödd og hátterni stjórnmálamannsins.   

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningadeild ríkislögreglustjóra.
Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningadeild ríkislögreglustjóra. mbl.is/Hallur Már

Ber að tilkynna til ríkislögreglustjóra 

Að sögn Elfu ber hinum stofnunum í samráðshópnum að tilkynna til ríkislögreglustjóra ef þær verða einhvers áskynja sem geti talist óeðlileg áhrif á kosningar.

Hins vegar sé ríkislögreglustjóra ekki heimilt að deila með öðrum stofnunum í samráðshópnum hvaða upplýsingar stofnunin hefur undir höndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert