Segja skattahækkun geta skilað minni tekjum

Fundur um niðurstöður skýrslunnar fór fram í morgun.
Fundur um niðurstöður skýrslunnar fór fram í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hækkun á virðisaukaskattshlutfalli í geirum ferðaþjónustu gæti haft neikvæð áhrif á stöðu íslenskrar ferðaþjónustu, meðal annars dregið úr vexti greinarinnar, og veikt samkeppnisstöðu hennar. Þetta kemur fram í nýrri lokaskýrslu Hagrannsókna um málið sem unnin var fyrir Samtök ferðaþjónustunnar (SAF).

Helstu niðurstöður skýrslunnar benda til þess að möguleg hækkun virðisaukaskatts úr 11% í 24% hefði neikvæð áhrif á verga landsframleiðslu og geti minnkað veltu innan greina ferðaþjónustunnar, eins og gisti- og veitingaþjónustu.

Þá er talið að aukning skatttekna muni ekki ná sama hlutfalli, heldur þvert á móti sé möguleiki á lækkun svo um muni. Einnig gæti hækkunin veikt krónuna og hækkað verðbólgu. Bent er á að rannsóknir á virðisaukaskattsbreytingum annarra landa staðfesti niðurstöður Hagrannsókna og sýni að sama skapi að lækkun virðisaukaskattshlutfalls hefði öfug og jákvæðari áhrif.

Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á fundi SAF á Beryaja Reykjavík Natura nú í morgun. Við vinnu skýrslunnar var nýtt þjóðhagslíkan, sem þróað hefur verið fyrir ferðaþjónustuna, meðal annars notað. Líkanið gerir stjórnvöldum og aðilum í ferðaþjónustu kleift að meta afleiðingar mögulegra breytinga á geirann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka