Við elskum þýðendur

Umboðsskrifstofan Reykjavík Literary Agency kynnir verk íslenskra rithöfunda erlendis. Fyrir stuttu bar svo við að kynning á verkum Halldórs Laxness var flutt til Íslands eftir að hafa verið hjá danskri umboðsskrifstofu í hálfa öld.

Meðal þeirra höfunda sem þær Valgerður Benediktsdóttir og Stella Soffía Jóhannesdóttir hjá Reykjavík Literary Agency Reykjavík Literary hafa á sínum snærum er Halldór Laxness en fyrir nokkrum dögum bar svo við að þær tóku við hans verkum frá danskri umboðsstofu sem hafði verið með hann á sinni könnu síðustu fimmtíu árin. „Við erum að springa úr monti og hamingju,“ segir Valgerður og Stella tekur í sama streng. „Við erum þar með orðin umboðsskrifstofa með Nóbelsskáld innan borðs.“

„Við leggjum mikinn metnað í það núna að fá nýjar þýðingar á verkunum,“ segir Valgerður, „af því að svo margar eldri þýðingar eru ekki þýddar úr íslensku.“ „Og líka eru margar þýðingar orðnar gamlar og henta þá oft ekki nýjum lesendum. Það var til dæmis að koma ný þýðing á dönsku af Sjálfstæðu fólki, sem Nanna Kalkar þýðir,“ segir Stella og Valgerður bætir við: „Hún er kannski ekki fyrsta konan sem þýðir Sjálfstætt fólk, en hún er fyrsti þýðandinn sem rekur sig á villu í bókinni sem varðar meðgöngutíma.“ Þær segja að þýðingin hafi fengið afskaplega góðar viðtökur í Danmörku. Nýverið hafi Salka Valka síðan verið seld til Ítalíu og þær hafi verið að ganga frá samningum um Gerplu og Íslandsklukkuna í Póllandi, tilboð hafi verið að berast frá Ungverjalandi og alltaf standi til að þýða bækurnar úr íslensku. „Við viljum bara undirstrika það,“ segir Valgerður, „að við elskum þýðendur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka