Fylgi Sjálfstæðisflokks hefur dalað í Árborg

Samkvæmt skoðanakönnun, sem Fréttablaðið birtir í dag, hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins dalað í Árborg. Sjálfstæðisflokkurinn missir fimm prósentustig frá síðustu könnun og mælist nú með 42,1 prósentustig. Líkt og í síðustu könnun fengi flokkurinn fjóra bæjarfulltrúa kjörna.

Framsóknarflokkur bætir við sig fylgi og segist nú 17,1 prósent myndu kjósa flokkinn. Flokkurinn fengi því einn bæjarfulltrúa kjörinn.

Samfylking bætir einnig aðeins við sig fylgi og segjast nú 29,7 prósent myndu kjósa flokkinn og fengi hann því þrjá fulltrúa kjörna. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs dalar og mælist flokkurinn nú með 10,5 prósenta fylgi og fengi mann kjörinn.

Einnig var spurt hvort nýlegar fréttir af Eyþóri Arnalds, fyrsta manni á lista Sjálfstæðisflokks í sveitarfélaginu, hefðu haft áhrif á ákvörðunina og sögðu tæp tuttugu prósent svarenda svo vera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert