Sigrún Björk verður bæjarstjóri á Akureyri í byrjun næsta árs

Kristján Þór og Sigrún Björk á blaðamannafundi í morgun þar …
Kristján Þór og Sigrún Björk á blaðamannafundi í morgun þar sem tilkynnt var um bæjarstjóraskiptin. mbl.is/Skapti

Sigrún Björk Jakobsdóttir tekur við sem bæjarstjóri á Akureyri, fyrst kvenna, á fyrsta fundi bæjarstjórnar á næsta ári, sem haldinn verður 9. janúar. Sigrún Björk hefur verið forseti bæjarstjórnar Akureyrar frá því í vor en Kristján Þór Júlíusson, sem lætur af starfi bæjarstjóra, tekur við embætti forseta bæjarstjórnar.

Þetta var ákveðið á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri í gærkvöldi og tilkynnt á blaðamannafundi í dag. Kristján Þór sigraði um síðustu helgi í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi vegna alþingiskosninganna í vor og hyggst láta af starfi bæjarstjóra áður en kosningabaráttan hefst.

Sigrún Björk sagði það mikinn heiður að verða bæjarstjóri og kvaðst fagna því sérstaklega að kona taki við því embætti. „Í jafnréttisbarbaráttunni skiptir allt máli og ég lít á þetta sem gott skref í þeirri baráttu. Ég er fyrst og fremst ánægð vegna þess. Vonandi verður það ekki mikil frétt í framtíðinni að kona verði bæjarstjóri heldur algjörlega sjálfsagður hlutur en það er ekki orðið það enn þannig að ég fagna þessu gríðarlega."

Hjalti Jón Sveinsson tekur sæti Sigrúnar Bjarkar í bæjarráði og Elín Margrét Hallgrímsdóttir tekur sæti í framkvæmdaráði, stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar og stjórn Akureyrarstofu.

Sigrún Björk er fædd 1966. Hún tók sæti í bæjarstjórn Akureyrar árið 2002 og var ritari Sjálfstæðisfélags Akureyrar 2003 til 2004.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert