Borgarstjórnarflokkur F-lista styður Margréti

Borgarstjórnarflokkur F-listans hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem stuðningi er lýst við Margréti Sverrisdóttur til forustustarfa í flokknum. Margrét hefur lýst því yfir að hún sækist eftir embætti varaformanns á landsfundi um næstu helgi.

Í yfirlýsingunni segir, að verk Margrétar beri vott um víðsýni og þau stefnumál sem hún hafi staðið vörð um eru mikilvægt innlegg í landsmálin. Meðal þeirra málaflokka, sem hún hafi sinnt af alúð, séu velferð, menntun, umhverfi og aðrir almannahagsmunir án þess að skerða frelsi einstaklinga til framkvæmda.

„Hún hefur í störfum sínum sýnt það og sannað að hún er trúverðugur leiðtogi sem fylgir af festu yfirlýstri stefnu. Margrét hefur flesta kosti sem prýða góðan stjórnmálamann. Hún leysir mál af fagmennsku á grundvelli þekkingar og reynslu sem hún hefur öðlast í gegnum fjölbreytt ábyrgðarstörf í borgarstjórnarflokki F-listans og víðar," segir í yfirlýsingunni, sem þau Guðrún Ásmundsdóttir, Kjartan Eggertsson, Ólafur F. Magnússon, Ásta Þorleifsdóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir skrifa undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert