Ný skipting Reykjavíkurkjördæmanna ákveðin

Mörk Reykjavíkurkjördæmanna liggja m.a. um Miklubraut.
Mörk Reykjavíkurkjördæmanna liggja m.a. um Miklubraut. mbl.is/Júlíus

Landskjörstjórn hefur ákveðið ný mörk milli Reykjavíkurkjördæmis suður og Reykjavíkurkjördæmis norður en vegna breytinga á búsetu í kjördæmunum þurfti að breyta mörkum þeirra frá síðustu Alþingiskosningum. Miðað er við, að kjósendur í hvoru kjördæmi fyrir sig að baki hverju þingsæti séu nokkurn veginn jafnmargir og að hvort kjördæmi sé sem samfelldust heild.

Nýju mörkin eru í stórum dráttum dregin um miðlínu Hringbrautar frá Ánanaustum, Miklubraut, Ártúnsbrekku og Vesturlandsvegar en frá Vesturlandsvegi á móts við Sóltorg eru mörkin dregin eftir miðlínu Kristnibrautar, Gvendargeisla og Biskupsgötu að Reynisvatnsvegi. Frá gatnamótum Biskupsgötu og Reynisvatnsvegar skal dregin bein lína að borgarmörkum.

Kjósendur sem búa við sunnanverða Hringbraut, gömlu Hringbraut, Miklubraut eða Vesturlandsveg verða á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður en kjósendur sem búa við þessar götur að norðanverðu eru á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi norður. Kjalarnes, póstnúmer 116, tilheyrir Reykjavíkurkjördæmi norður.

Grafarholtshverfi, póstnúmer 113, austan Vesturlandsvegar, var áður innan marka Reykjavíkurkjördæmis norður en skiptist nú milli suður- og norðurkjördæmis um Kristnibraut, Gvendargeisla og Biskupsgötu eins og nánar kemur fram í auglýsingu landskjörstjórnar. Kjósendur sem búa sunnan við þessar götur verða á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður en þeir sem búa við þessar götur að norðanverðu verða á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Landskjörstjórn segir, að samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag séu 87.173 kjósendur alls á kjörskrárstofni í Reykjavík. Skipting milli kjördæma sé þannig að í Reykjavíkurkjördæmi suður eru 43.398 kjósendur eða 49,78% af fjölda kjósenda í Reykjavík en í Reykjavíkurkjördæmi norður eru 43.775 kjósendur eða 50,22% af fjölda kjósenda í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert