Steingrímur: Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar allt of hægrisinnuð

Steingrímur J. Sigfússon ræðir við blaðamenn í þinghúsinu nú síðdegis.
Steingrímur J. Sigfússon ræðir við blaðamenn í þinghúsinu nú síðdegis. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði við fréttamenn eftir þingflokksfund VG í dag, að hann teldi að ríkisstjórn, sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking kunna að mynda, verði allt of hægrisinnuð.

Steingrímur sagði, að hann teldi mun skárra, fyrst Sjálfstæðisflokkurinn væri að mynda stjórn, að VG hefði farið með hinum í samstarf frekar en flokkar, sem stæðu sjálfstæðismönnum nær varðandi stefnu. Hins vegar væri það kostur varðandi umhverfismál, að harðsnúin sveit þingmanna VG yrði þeim til varnar á þingi.

Steingrímur sagðist ekki hafa verið í neinu baktjaldamakki við aðra flokka í kjölfar kosninganna og eingöngu hefðu farið fram óformlegar þreifingar gegnum síma. Hann sagðist hins vegar telja, að framsóknarmenn væru ekkert hressir með það hvernig farið hafi verið með þá undanfarna daga. Sagði Steingrímur mikilvægt, að fylgt væri settum reglum og hefðum og óviðurkvæmilegt væri, að hefja formlegar viðræður flokka áður en formlegt stjórnarmyndunarumboð hafi fengist.

VG varpaði í vikunni fram þeirri hugmynd, að flokkurinn og Samfylkingin mynduðu minnihlutastjórn með fulltingi Framsóknarflokksins, sem myndi verja stjórnina falli. Þessu höfnuðu framsóknarmenn strax. Steingrímur sagði, þeir kynnu að velta því fyrir sér nú, hvort þeir hefðu ekki átt að taka þessari hugmynd betur því þá hefðu þeir getað notað tækifærið til að endurskipuleggja flokkinn eftir kosningaósigurinn og hugsanlega átt þess kost að koma inn í ríkisstjórnina síðar.

Steingrímur sagði jafnframt, að spennandi væri að sjá hvað forseti gerði á morgun eftir að Geir hefði sagt af sér en hann sagðist telja eðlilegt að Samfylkingin fengi umboð til stjórnarmyndunar frekar en Sjálfstæðisflokkur fyrst stjórnin væri sprungin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert