Geir gengur á fund forseta Íslands klukkan 11

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde ræða við fréttamenn …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde ræða við fréttamenn í gær. mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, gengur á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á Bessastöðum klukkan 11 í dag til að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Hann mun einnig fara fram á umboð til að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar.

Gert er ráð fyrir að Ólafur Ragnar ræði við leiðtoga stjórnmálaflokkanna áður en hann ákveður hver fær umboð til stjórnarmyndunarviðræðna. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagðist í gær myndu leggja það til að Ingibjörg Sólrún fengi umboðið sem leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins til að freista þess að mynda vinstristjórn með VG og Framsóknarflokknum.

Ingibjörg Sólrún sagði í gærkvöldi, að vegna mjög takmarkaðs áhuga á því af hálfu Vinstri grænna að mynda ríkisstjórn með Framsóknarflokki, hafi forsendur fyrir viðræðum flokkanna þriggja um myndun nýrrar ríkisstjórnar ekki verið fyrir hendi.

„Þó að mér hafi kannski verið það ljóst fyrir kosningar og á kjördag, var atburðarásin eftir kjördag líka með þeim hætti að það glæddi ekki þær vonir. Ég sá einfaldlega ekki fram á að flokkarnir næðu saman," ssagði hún. „Þar að auki sá ég lítinn ávinning í því að vera í forsvari fyrir ríkisstjórn sem væri plöguð af sundurlyndi og innbyrðis tortryggni þessara tveggja flokka (Framsóknarflokks og VG)."

Guðni Ágústsson og Össur Skarphéðinsson ræðast við utan við Alþingishúsið …
Guðni Ágústsson og Össur Skarphéðinsson ræðast við utan við Alþingishúsið í gær. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert