Jóhanna og Davíð ræddu saman

Frá blaðamannafundi Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í dag.
Frá blaðamannafundi Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í dag. mbl.is/Rax

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ræddi í síma við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra, í morgun um það bréf sem seðlabankastjórum var sent í gær. Sagði Jóhanna á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag, að hún hefði ekki fengið skýr svör frá Davíð um hvort hann yrði við tilmælum ríkisstjórnarinnar um að víkja.

Jóhanna sagði, að Davíð væri staddur erlendis og hefði hringt í sig. Henni hefði virst hann þurfa meiri tíma til að skoða þessa nýju stöðu. Jóhanna sagðist ekki vilja upplýsa til hvaða ráða yrði gripið ef seðlabankastjórarnir vildu ekki segja af sér.  

Ríkisstjórnin afgreiddi á fundi sínum í dag frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabankann þar sem gert er ráð fyrir að seðlabankastjóri verði einn og hann ráðinn á faglegum forsendum að undangenginni auglýsingu. Verður frumvarpið væntanlega lagt fram á Alþingi í vikunni og stefnt er að því að afgreiða það hratt.

Jóhanna sendi í gær bréf til bankastjóra Seðlabankans  þar sem hún upplýsti þá um um þessi áform og óskaði eftir því að seðlabankastjórarnir myndu víkja og ganga til viðræðna við stjórnvöld um starfslok.

Spurð hvort hvað starfslok bankastjóranna myndu kosta sagði Jóhanna að það lægi fyrir hvernig framkvæma eigi það þegar um starfslok sé að ræða. Rætt hafi verið um að starfslok bankastjórana myndi kosta allt að 200 milljónir króna en reynt verði að semja við þá um starfslok sem verði ekki óheyrilega dýr. Sagðist Jóhanna treysta seðlabankastjórunum til að líta ábyrgt á það umhverfi sem Ísland væri í og ganga til samninga.

Jóhanna sagðist telja, að 12 mánaða starfslok gætu verið viðunandi en á endanum hljóti stjórnvöld að meta meta meiri hagsmuni fyrir minni ef á það þurfi að reyna að fullu. Brýnt sé að breytingar verði á yfirstjórn Seðlabankans til að endurreisa trúverðugleika Íslands gagnvart alþjóðasamfélaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert