Gefur kost á sér í 2. sæti Frjálslyndra í NV-kjördæmi

Magnús Þór Hafsteinsson.
Magnús Þór Hafsteinsson.

Magnús Þór Hafsteinsson gefur kost á mér í annað sæti á lista Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi.

Hann segist í tilkynningu bjóða sig fram í Norðvesturkjördæmi vegna þess að þar séu sínar rætur. Hann er fæddur og uppalinn Akurnesingur.  Að ættum og uppruna segist hann vera Vestfirðingur og Vestlendingur, með rætur á sunnanverðum Vestfjörðum og í byggðum Borgarfjarðar. Uppeldi sitt og grunnmenntun hafi hann hlotið á Vesturlandi og í Skagafirði. 

Magnús segist hafa víðtæka starfsreynslu og staðgóða framhaldsskóla- og háskólamenntun í landbúnaði og sjávarútvegi, sem hvorutveggja séu lykilatvinnuvegir í kjördæminu. Hann  sat á Alþingi sem þingmaður Suðurkjördæmis kjörtímabilið 2003 – 2007  og var þingflokksformaður um þriggja ára skeið.

Hann hefur  starfað sem blaðamaður og setið í nefndum um starfsumhverfi fjölmiðla frá árinu 2004. Hann er varabæjarfulltrúi á Akranesi síðan 2005 og var formaður menningar- og safnanefndar og félagsmálaráðs bæjarins til 2007.


Í tilkynningu um framboðið segir Magnús Þór m.a.: „Ísland stendur frammi fyrir mjög alvarlegum tímum þar sem þess verður vænst að hver borgari geri eftir bestu getu skyldu sína í að takmarka það tjón sem þjóðfélagið mun verða fyrir vegna þeirrar efnahagskreppu sem við stöndum nú frammi fyrir. Eftir þá miklu varnarbaráttu sem nú er að hefjast, þarf að leggja drög að uppbyggingarstarfi til framtíðar. Ég trúi staðfastlega á þá framtíð. Ég er sannfærður um að þjóðinni muni takast að komast í gegnum erfiðleikana en legg þó enga dul á að þetta verður erfitt. Ég vil leggja mig allan fram í einlægni og fórnfýsi, við að taka þátt í þessum störfum. Það verður að verja hag almennra borgara og forðast atvinnuleysi og fólksflótta af landinu með öllum tiltækum ráðum.“

Sjá nánar heimasíðuna  www.magnusthor.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert