Þriggja mánaða bataferli

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, áttu fund …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, áttu fund í Eldborg í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, vildi í dag ekki upplýsa um áform sín í stjórnmálum. Hún sagði þó, að læknar hafi sagt sér að það muni taka hana þrjá mánuði að ná sér eftir heilaaðgerðir, sem hún hefur gengist undir og það rými ekki vel við pólitískar dagsetningar, sem eru framundan.

Ingibjörg Sólrún sagði, að nú væri mánuður liðinn af þessu bataferli. Hún sagðist hafa verið svo máttfarin á tímabili, að hún gat ekki skrifað með penna. Nú stundi hún leikfimi til að ná fullri heilsu á ný.

Formaður Samfylkingarinnar sagðist aðspurð vera ánægð með störf ríkisstjórnarinnar og teldi að Ísland væri komið vel áleiðis á beina braut eftir fjármálahrunið.  Sagðist hún aðspurð telja, að það muni taka 3-4 ár að komast að fullu út úr kreppunni. Aðild að Evrópusambandinu myndi flýta fyrir þeirri siglingunni og sagðist Ingibjörg Sólrún vilja sjá umsókn um aðild að sambandinu á þessu ári.  

Þá sagðist Ingibjörg Sólrún telja að það muni ganga greiðlega að finna nýja yfirstjórn í Seðlabankanum. Hún sagðist aðspurð ekki útiloka, að erlendur maður verði ráðinn seðlabankastjóri.

Ingibjörg Sólrún átti í dag fund með Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sem hér er staddur ásamt öðrum norrænum forsætisráðherrum vegna norrænnar ráðstefnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert