Fréttaskýring: Prófkjörshræringar í Norðausturkjördæmi

Horft út Eyjafjörðinn með Akureyri í forgrunni.
Horft út Eyjafjörðinn með Akureyri í forgrunni. www.mats.is

Í þriðju yfirferðinni yfir prófkjör og forval stjórnmálaflokkanna í einstökum kjördæmum er staldrað við í Norðausturkjördæmi, þar sem stóru flokkarnir fjórir eru allir með prófkjör eða forval, ýmist opið, netkosningu eða póstkosningu. Hér á eftir er reynt að rýna í stöðuna í þessu víðáttumikla kjördæmi og úrslit færð inn eftir því sem þau berast.

Jafnframt er rétt að geta þess að þessi samantekt, líkt og hinar fyrri um Kragann og Norðvesturkjördæmi, svo og hinar sem seinna koma - um Suðurkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmin - verða áfram virkar hér á kosningavefnum fram yfir prófkjör og uppfærðar með nýjum eða lagfærðum upplýsingum ef slíks gerist þörf.

Framsókn

Norðausturkjördæmi hefur verið sterkasta vígi Framsóknarflokksins um árabil. Flokkurinn fékk þar tæp 25% atkvæða í kosningunum 2007 og í könnun Capacent Gallup á dögunum  mældist hann á svipuðu róli, eða með rétt tæp 26%. Í kosningunum 2007 fékk flokkurinn þrjá þingmenn og gæti haldið þeim ef marka má skoðanakönnunina. Alls gefa 16 manns kost á sér í 8 efstu sætin í prófkjörinu sem haldið verður á kjördæmisþingi flokksins 15. mars nk.

Frá kosningunum 2007 hefur sú breyting orðið á að oddviti flokksins í kjördæminu, Valgerður Sverrisdóttir, hefur dregið sig í hlé. Helstu tíðindin í prófkjörsbaráttunni eru því að þarna munu þeir berjast um fyrsta sætið, Birkir Jón Jónsson, alþingismaður og varaformaður flokksins, og Höskuldur Þ. Þórhallsson, alþingismaður, sem tapaði naumlega fyrir nýja formanninum, Sigmundi Davíð, á dögunum; var reyndar lýstur sigurvegari í formannsslagnum í fáeinar mínútur, svo sem frægt er.

Ekki skal þess freistað að geta í styrkleikamuninn á þeim félögum, en Birkir hefur vinninginn þegar horft er til þingreynslu, því að hann komst fyrst á þing 2003 en Höskuldur 2007. Rætur Birkis liggja í Siglufirði en Höskuldar kemur af talsvert fjölbýlla svæði, Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu.

Þeir eru þannig báðir úr norðurhluta kjördæmisins og það var reyndar Valgerður líka, svo að gamla Austurland má teljast nokkuð afskipt. Af frambjóðendum þaðan virðist aðeins Áskell Einarsson, bóndi á Eiðum, stefna á efstu sætin sem gætu gefið þingsæti en hann sækist eftir 2.-5. sæti á listanum. Önnur kunnuglega nöfn á listanum eru Sigfús Karlsson, framkvæmdastjóri á Akureyri, varaþingmaður sem vann sér það til frægðar að vera kominn í ræðustól Alþingis tæpum 13 mínútum eftir að hann sór drengskapareið  og slá þannig þriggja mánaða gamalt met flokksbróður síns úr sama kjördæmi, um fjórar mínútur. Þá má nefna ljósmóðurina, söngkonuna og dagskrárgerðarmanninn Evu Ásrúnu Albertsdóttur, sem sækist eftir 2.-3. sætinu. Hún á ættir að rekja norður og var kosningastjóri Framsóknar í kjördæminu í kosningunum 2007.

 Kosið var um sætin á aukakjördæmisþingi sem haldið var á Egilsstöðum.

Alls greiddu 928 atkvæði.

 
1. Birkir Jón Jónsson, alþingismaður, með 505 atkvæði í 1. sæti.
2. Höskuldur Þór Þórhallsson, alþingismaður, með 647 atkvæði í 1.-2. sæti.
3. Huld Aðalbjarnardóttir menningar-og fræðslufulltrúi Norðurþings, með 509 atkvæði í 1.-3. sæti.
4. Sigfús Karlsson, framkvæmdastjóri, með 340 atkvæði í 1.-4. sæti.
5. Svanhvít Aradóttir, forstöðuþroskaþjálfi, með 448 atkvæði í 1.-5. sæti.
6. Hallveig Björk Höskuldsdóttir, leiðtogi í málmvinnslu Alcoa, með 463 atkvæði í 1.-6. sæti.
7. Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi og tamningamaður, með 497 atkvæði í 1.-7. sæti.
8. Anna Kolbrún Árnadóttir, sérkennari,með 397 atkvæði í 1.-8. sæti.

Samfylking

Í kosningunum 2007 fékk flokkurinn tæplega 21% atkvæða en í nýjustu skoðanakönnun Capacent Gallup mældist hann með rétt um 23%. Flokkurinn fékk 2 þingmenn kjörna í kosningunum og ætti miðað skoðanakönnunina a.m.k. að halda þeim. Átján gefa kost á sér í prófkjörinu sem fer fram á netinu nk. laugardag, 7. mars.

Ekki er útlit fyrir mikla endurnýjun í þessu kjördæmi. Kristján Möller, samgönguráðherra, er fastur í sess sem oddviti flokksins í kjördæminu. Hinn þingmaðurinn, Einar Már Sigurðarson, gefur eingöngu kost á sér í 2. sætið, og ætla má að helst verði sótt að því. Orðrómur hefur verið uppi að bandalag sé í gangi milli Kristjáns Möller og Sigmundar Ernis Rúnarssonar, rithöfundar og fjölmiðlamanns, sem sækist eftir 2. sætinu en því er mótmælt. 

Logi Már Einarsson, arkitekt á Akureyri, býður sig fram í 1.-3. sæti, Örlygur Hnefill Jónsson, lögmaður á Húsavík, formaður Byggðastofnunar og fyrrum varaþingmaður sækist eftir 1.-4. sæti, og Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri á Akureyri, og þekktur úr Silfri Egils sem harðsnúinn andstæðingur verðtryggingar, býður sig fram í 1.-6. sæti. Óðinn Svan Geirsson, verslunarstjóri, sækist eftir 1.-8. sæti. Tvær konur gefa kost á sér í þingmannssætin 1. og 2. - Agnes Arnardóttir, atvinnurekandi á Akureyri, og Jónína Rós Guðmundsdóttir, formaður bæjarráðs í Fljótsdalshéraði, frá Egilsstöðum.

Einar Már hefur ekki verið áberandi þingmaður, þótt oft sjáist hann í útsendingum frá Alþingi sem 4. varaforseti, en hann þykir vinnusamur og er með mikla þingreynslu. Hann var fyrst kjörinn á þing 1999 fyrir Austfirðinga og hann sat í fjárlaganefnd allar götur til síðustu kosninga. Það verður því að ætla að Austfirðingarnir standi vörð um hann - nema auðvitað að þeir vilji skipta honum út fyrir konu, sem væri þá Jónína Rós frá Egilsstöðum.

Aftur á móti þarf Samfylkingin ekki að bæta við sig miklu frá síðustu skoðanakönnun til að þriðja þingsætið fari að verða í sjónmáli.

Úrslit prófkjörsins liggja fyrir og helstu tíðindin urðu þau að Einar Már Sigurðsson náði ekki inn meðal hinna efstu en niðurstaðan varð þessi:

Alls greiddu 2.574 atkvæði.

Kosningin er bindandi fyrir átta efstu sætin. Þau raðast þannig:

1. Kristján L. Möller 1173 atkvæði
2. Sigmundur Ernir Rúnarsson 917 atkvæði
3. Jónína Rós Guðmundsdóttir 844 atkvæði
4. Logi Már Einarsson 737 atkvæði
5. Helena Þ. Karlsdóttir 942 atkvæði
6. Örlygur Hnefill Jónsson 1138 atkvæði
7. Herdís Björk Brynjarsdóttir 1174 atkvæði
8. Stefanía G. Kristinsdóttir 1245 atkvæði

Jónína Rós var flutt upp í þriðja sæti vegna kynjakvóta.

Sjálfstæðisflokkur

Flokkurinn fékk 28% atkvæða í síðustu kosningum en tapar miklu fylgi miðað við síðustu Capacent Gallup könnun - mældist aðeins með 18,6% fylgi. Alls gáfu 10 kost á sér í prófkjörinu sem fram fer 15. mars nk. þar á meðal þingmennirnir Kristján Þór Júlíusson, oddviti listans í kjördæminu, og Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaðurinn, en Ólöf Nordal, þriðji þingmaðurinn, hefur séð þann kostinn vænstan að taka slaginn í prófkjöri flokksins í Reykjavík enda tæpast horfur á að 3ja sætið haldist - a.m.k. eins og staðan er í dag.

Bæði Kristján Þór og Arnbjörg ættu að standa nokkuð traustum fótum í prófkjörinu, Kristján Þór raunar stöðugt verið að eflast innan þings og flokks, nú síðast sem annar þeirra sem leiðir stefnumörkun flokksins gagnvart Evrópusambandsaðild. Arnbjörg er ekki ein um hituna í 2. sæti því eftir því sækist einnig Soffía Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs. Það gerir einnig Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og nýráðinn prófessor við Háskólann í Reykjavík, en hann er ættaður af Austfjörðum. Þá er á prófkjörslistanum Björn Ingimarsson, en hann komst í fréttirnar eftir að framboð hans í prófkjörinu þar sem hann sóttist eftir 3. sætinu, kostaði hann starfið sem sveitarstjóri Langanesbyggðar.

Lokatölur eru komnar í Norðausturkjördæmi og er röð efstu frambjóðenda óbreytt frá því í fyrstu tölunum. Kristján Þór Júlíusson fær afgerandi kosningu í fyrsta sætið með alls 1477 atkvæði en alls greiddi 2041 kjósandi atkvæði í prófkjörinu. Tryggvi Þór Herbertsson hafnar í öðru sæti og Arnbjörg Sveinsdóttir í því þriðja. 

Röð sex efstu frambjóðendanna er því sem hér segir:

  1. Kristján Þór Júlíusson
  2. Tryggvi Þór Herbertsson
  3. Arnbjörg Sveinsdóttir
  4. Björn Ingimarsson
  5. Soffía Lárusdóttir
  6. Anna Guðný Guðmundsdóttir

Vinstri græn

Flokkurinn fékk 19,6% atkvæða í kosningunum 2007 en í skoðanakönnun Capacent Gallup sem áður hefur verið vitnað til er flokkurinn á miklu flugi, mælist með rösklega 31% fylgi sem væntanlega gæfi flokknum 3 þingmenn í stað 2ja núna.  Alls tekur 21 þátt í forvalinu sem var póstkosning og er þegar lokið. Átti að tilkynna um úrslitin í gærkvöldi en vegna tafa í póstsamgöngum tafðist talningin en liggur nú fyrir eins og sést hér að neðan.

Ótvíræður leiðtogi flokksins í kjördæminu sem og á landsvísu er Steingrímur J. Sigfússon, núverandi fjármálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, með 26 ára þingmannsreynslu að baki. Þuríður Backman er hinn þingmaður flokksins í kjördæminu, en hún hefur setið á þingi frá 1999. Níu gáfu kost á sér í 3ja sætið sem gæti gefið þingsæti, þar á meðal Björn Valur Gíslason, varaþingmaður, og Hlynur Hallsson sem var varaþingmaður 2003-2007, báðir frá Akureyri.

Niðurstaða forvalsins varð þessi:

1.      Steingrímur J. Sigfússon
2.      Þuríður Backman
3.      Björn Valur Gíslason
4.      Bjarkey Gunnarsdóttir
5.      Þorsteinn Bergsson
6.      Hlynur Hallsson
7.      Dýrleif Skjóldal Ingimarsdóttir
8.      Jóhanna Gísladóttir

Vegna reglna um kynjajafnrétti á listum Vinstri grænna færist Dýrleif Skjóldal upp fyrir Hlyn Hallsson. Endanlegur list lítur svo út:

1.        Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður
2.        Þuríður Backman, alþingismaður
3.        Björn Valur Gíslason, skipstjóri
4.        Bjarkey Gunnarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi
5.        Þorsteinn Bergsson, bóndi
6.        Dýrleif Skjóldal Ingimarsdóttir, leikskólakennari
7.        Hlynur Hallsson, myndlistarmaður
8.        Ingunn Snædal, grunnskólakennari
9.        Ásmundur Páll Hjaltason, tækjamaður
10.        Ásta Svavarsdóttir, grunnskólakennari
11.        Kári Gautason, nemi
12.        Júlíana Garðarsdóttir, nemi
13.        Hrafnkell Lárusson, forstöðumaður
14.        Jóhanna Gísladóttir, aðstoðarskólastjóri
15.        Kristján Eldjárn Hjartarson, byggingafræðingur
16.        Ríkey Sigurbjörnsdóttir, aðstoðarskólastjóri
17.        Andrés Skúlason, oddviti
18.        Sigríður Hauksdóttir, tómstundafulltrúi
19.        Guðmundur H. Sigurjónsson, verkamaður
20.        Málmfríður Sigurðardóttir, fyrrverandi alþingiskona

//
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert