Ný ríkisstjórn á morgun

mbl.is/Ómar

Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs tekur að óbreyttu við völdum á morgun. Þá verður sáttmáli nýrrar stjórnar kynntur.

Meginstef stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar verður endurreisn íslensks samfélags, aðgerðir í þágu heimilanna og fyrirtækja, endurreisn bankakerfis og uppbygging atvinnulífs.

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar lauk viðræðum við þingmenn flokksins í dag. Viðræðurnar hófust í gær og síðan komu þeir einn af öðrum í morgun. Rætt var um stjórnarsáttmálann, auk þess sem Jóhanna hlustaði á viðhorf þingmanna til skipunar í ráðherraembætti og nefndir Alþingis.

Þingflokkur VG hittist síðdegis í sömu erindagjörðum. Flokksráð VG kemur saman í fyrramálið, ræðir stöðu mála og framtíðarhorfur í landstjórninni, í samræmi við lög VG en þar er kveðið á um samráð þingflokks og flokksráðs komi til stjórnarmyndunar með þátttöku flokksins. Í flokksráði sitja 30 fulltrúar kjörnir á landsfundi en auk þeirra eiga sæti í ráðinu allir kjörnir sveitastjórnarfulltrúar, alþingismenn, varaþingmenn, formaður Ungra Vinstri Grænna, formenn svæðisfélaga og formenn kjördæmisráða. Að loknum flokksráðsfundi er reiknað með þingflokksfundi.

Þessu er öfugt farið hjá Samfylkingunni. Þingflokkurinn hittist að líkindum í hádeginu á morgun en flokksstjórn er boðuð til fundar klukkan eitt á morgun. Í flokksstjórn Samfylkingarinnar eru 30 kjörnir fulltrúar á landsfundi, þingmenn og sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar, framkvæmdastjórnarmenn, 31 fulltrúi kjörinn af kjördæmaráðum, formenn kjördæmis- og fulltrúaráða, formenn aðildarfélaga og stjórn verkalýðsmálaráðs.

Reiknað er með að ný ríkisstjórn og stjórnarsáttmáli verði kynnt seinni part dags á morgun og í kjölfarið verði efnt til tveggja ríkisráðsfunda. Fyrst kemur fráfarandi ríkisstjórn á Bessastað en að því loknu verður fyrsti ríkisráðsfundur nýrrar ríkisstjórnar.

Líklegt er að ráðuneytum fækki um eitt að minnsta kosti og liggur fyrir tillaga um atvinnuvegaráðuneyti, sem fari með verkefni sem nú eru hjá iðnaðar-, landbúnaðar og sjávarútvegsráðuneytum. Stærri uppstokkanir á stjórnskipan bíða að líkindum til áramóta.

Formenn stjórnarflokkanna, þau Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, hafa haldið spilunum þétt að sér en leggja ráðherrakapalinn fyrir æðstu stofnanir flokkanna á morgun.

Tveir nýir ráðherrar eru nefndir, þau Svandís Svavarsdóttir VG og Árni Páll Árnason, Samfylkingu.

Fullvíst þykir að Ragna Árnadóttir, sem gegnt hefur embætti dóms- og kirkjumálaráðherra frá í febrúar, hverfi úr ríkisstjórn. Sama er að segja um Kolbrúnu Halldórsdóttur, umhverfisráðherra sem ekki náði kjöri á Alþingi. Reiknað er með að Gylfi Magnússon sitji áfram í ríkisstjórn.

Rætt er um að Alþingi verði kvatt saman eftir viku, annaðhvort föstudaginn 15 maí eða mánudaginn 18. maí. Ekkert hefur þó verið endanlega ákveðið í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert