Mikil nýliðun á listanum

Sigrún Björk Jakobsdóttir.
Sigrún Björk Jakobsdóttir. mbl.is

„Ég er mjög ánægð með þessa niðurstöðu og einnig minn árangur. Þetta er sigurstranglegur listi í kosningum í vor og það hefur orðið mikil nýliðun," segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Akureyrar, um úrslit prófkjörsins í kvöld. Hún varð í 1. sæti með 762 atkvæði.

"Ég geti ekki annað en verið ánægð með minn árangur. Baráttan var mikil og minn mótframbjóðandi, Sigurður Guðmundsson, auglýsti mikið, og gerði hvað hann gat. En þetta er niðurstaðan og ég er mjög ánægð með hana," segir Sigrún Björk.

Sjálfstæðismenn eiga núna fjóra fulltrúa í bæjarstjórn. Einn sitjandi bæjarfulltrúi, Elín Margrét Hallgrímsdóttir, nær ekki endurkjöri. Hún stefndi á 2. sætið en er ekki meðal sex efstu. „Við sjáum þar á eftir miklum reynslubolta og góðum liðsmanni," segir Sigrún en Elín á að baki eitt kjörtímabil í bæjarstjórn. Ólafur Jónsson, sem varð í 2. sæti, hefur verið varabæjarfulltrúi á kjörtímabilinu. Ný meðal efstu sex manna eru Njáll Trausti Friðbertsson, Anna Guðný Guðmundsdóttir, Björn Ingimarsson og Sigurður Guðmundsson.

Spurð um þátttökuna í prófkjörinu, þar sem nærri 60% flokksmanna kusu, segist Sigrún Björk vera ánægð með hana. „Þetta er ágætt miðað við þátttöku í prófkjörum að undanförnu. Þátttakan er svipuð og í opnum prófkjörum hér hjá Framsóknarflokknum og Samfylkingunni. Við vorum með lokað prófkjör meðal okkar stuðningsmanna og ég held þetta sýni bara styrk okkar," segir Sigrún Björk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert