Fréttaskýring: Kosningabaráttan hófstillt og stutt

Aðeins eru fimm vikur til sveitarstjórnarkosninganna 29. maí. Þótt framboðslistar séu flestir komnir fram eru þó ekki allir tilbúnir enn. Frestur til að skila framboðum í sveitarfélögunum rennur út hinn 8. maí.

Framkvæmdastjórar stjórnmálaflokkanna eru á einu máli um að efnahagsþrengingarnar setji mikið mark á kosningabaráttuna, menn reyni að stilla kostnaði í hóf.

„Þetta er svolítið skrítin kosningabarátta. Hún er ekki hafin og ég tel að hún verði stutt og snörp,“ segir Drífa Snædal, framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sem býður nú fram á fleiri stöðum en í kosningunum 2006.

„Þetta er ekki barátta hinna miklu kosningaloforða. Það vita það allir að allir sjóðir eru tómir og ótrúverðugt að fara fram með einhver stór kosningaloforð,“ segir hún.

Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, gerir einnig ráð fyrir að kosningabaráttan verði fremur stutt, aðstæður í þjóðfélaginu bjóði ekki upp á annað. „Ég tel hyggilegt að kosningabaráttan verði bæði stutt og snörp og fari vel fram. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að undirbúa sig um nokkurra mánaða skeið fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar með málefnavinnu og að öðrum undirbúningi sem nauðsynlegur er.“

„Þetta er allt að fara í gang. Fólk finnur taktinn á hverjum stað,“ segir Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastýra Samfylkingarinnar. Undirbúningur fyrir sjálfa kosningabaráttuna er að komast í fullan gang. Framboðslistar eru flestir komnir fram, nú síðast í Garðabæ þar sem Samfylkingin býður í fyrsta skipti fram í eigin nafni til bæjarstjórnar. Sigrún segist eiga von á að kosningabaráttan fyrir sveitarstjórnarkosningarnar verði styttri að þessu sinni en í fyrri kosningum og hófstilltari.

„Það er verið að leggja síðustu hönd á framboðslista,“ segir Hrólfur Ölvisson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins. Að sögn hans verða fleiri B-listaframboð nú en í seinustu kosningum 2006. Efnahagskreppan, vandi heimilanna og atvinnumál munu yfirskyggja allt annað í þessum kosningum að mati hans.

Samkomulag um takmörk á auglýsingar í burðarliðnum

Víðast hvar grípa flokkarnir tækifærið á sumardaginn fyrsta til að vekja athygli á framboðunum með uppákomum af ýmsu tagi. Boðið verður upp á sumardagskaffi og efnt til fjölskyldugleði víða. Kosningamiðstöðvar verða opnaðar í dag og á allra næstu dögum víðs vegar í sveitarfélögum um allt land.

Í burðarliðnum er samkomulag á milli allra flokkanna sem bjóða fram á landsvísu um að sett verði takmörk á auglýsingar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Samningstexti liggur fyrir og búast talsmenn flokkanna við að samkomulag verði undirritað og kynnt á allra næstu dögum um hámark á þeirri upphæð sem stjórnmálaflokkar mega verja til að kaupa auglýsingar í fjölmiðlum.

S&S

Hvað verður kosið í mörgum sveitarfélögum?

Sveitarstjórnarkosningarnar 29. maí verða haldnar í 77 sveitarfélögum. Frá því kosið var til sveitarstjórna síðast árið 2006 hefur sveitarfélögum fækkað um tvö, úr 79 í 77. Að loknum kosningunum í vor tekur gildi sameining Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar.

Hvenær rennur framboðsfrestur út?

Frestur til að skila framboðslistum til yfirkjörstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi er til kl. 12 á hádegi laugardaginn 8. maí.

Er nú þegar hægt að kjósa utan kjörfundar?

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hófst 6. apríl. Hægt er að kjósa hjá öllum sýslumönnum á landinu, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá er utankjörfundaratkvæðagreiðsla erlendis hafin á 235 stöðum í 84 löndum.

Hafa sveitarfélög verið sameinuð frá seinustu kosningum?

Já, sveitarfélög sem hafa sameinast eru Aðaldælahreppur og Þingeyjarsveit og hins vegar Akureyrarbær og Grímseyjarhreppur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert