Meirihlutar féllu víða

Margir höfðu ástæðu til að fagna í nótt. Þessi mynd …
Margir höfðu ástæðu til að fagna í nótt. Þessi mynd var tekin á kosningavöku L-listans á Akureyri. mbl.is/Skapti

Talsverðar breytingar urðu á fylgi flokka og framboða í stærstu  sveitarfélögum í sveitarstjórnakosningunum í gær. Í tíu stærstu sveitarfélögum landsins féllu meirihlutar í fimm en héldu í fimm. Sjálfstæðisflokkurinn er nú með hreinan meirihluta í bæjarstjórn fjögurra af þessum tíu sveitarfélögum.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í Reykjavík. Þar tapaði Sjálfstæðisflokkurinn 2 borgarfulltrúum, fékk 5, og Framsóknarflokkurinn náði ekki inn manni. Besti flokkurinn fékk 6 borgarfulltrúa og því er staðan í borgarstjórninni afar óljós. 

Í Kópavogi féll meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks einnig. Sjálfstæðisflokkurinn fékk  fjóra borgarfulltrúa, tapaði einum en Framsóknarflokkurinn hélt sínum fulltrúa. Fréttir bárust af því í nótt að hin framboðin fjögur ætluðu að hefja viðræður um myndun nýs meirihluta.

Í Hafnarfirði missti Samfylkingin hreinan meirihluta, sem hún hefur haft undanfarin kjörtímabil, fékk 5 bæjarfulltrúa kjörna og tapaði tveimur. Sjálfstæðisflokkurinn fékk einnig 5 fulltrúa og bætti við sig tveimur. Fulltrúi Vinstri grænna, sem náði kjöri í bæjarstjórn, sagði í nótt að fyrst yrði rætt við Samfylkingu um myndun meirihluta.

Söguleg tíðindi á Akureyri

Á Akureyri urðu söguleg tíðindi þegar L-listi fólksins fékk 6 bæjarfulltrúa og hreinan meirihluta, hafði einn fulltrúa fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði þremur fulltrúum og Samfylkingin tveimur en þessir flokkar mynduðu áður meirihluta.

Á Akranesi  féll meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar Sjálfstæðisflokkurinn tapaði tveimur bæjarfulltrúum og hefur nú tvo. Samfylkingin fékk flest atkvæði og fjóra menn kjörna og bætti við sig tveimur bæjarfulltrúum.

Í Árborg fékk Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta, 5 bæjarfulltrúa og bætti við sig einum manni en Framsóknarflokkurinn tapaði manni og fékk einn kjörinn. Samfylkingin hélt tveimur mönnum og VG einum. 

Sjálfstæðisflokkurinn hélt meirihluta sínum í Garðabæ og bætti raunar við sig einum bæjarfulltrúa, fékk fimm kjörna. Samfylkingin fékk 1 mann og Listi fólksins 1. 

Flokkurinn hélt einnig meirihluta sínum í Reykjanesbæ  og sjö bæjarfulltrúum af 11. Í Mosfellsbæ fékk Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta og 4 fulltrúa kjörna en flokkurinn myndaði á síðasta kjörtímabili meirihluta með fulltrúa VG. Framsóknarflokkurinn missti hins vegar fulltrúa sinn í bæjarstjórn.

Í Fjarðabyggð héldu Fjarðalistinn og Framsóknarflokkurinn meirihluta sínum en Fjarðalistinn tapaði hins vegar manni til Sjálfstæðisflokks, sem nú er stærsti flokkurinn þar með 4 bæjarfulltrúa, Fjarðalistinn hefur 3 og Framsóknarflokkur 2. 

Meirihlutinn hélt

Sjálfstæðisflokkur hélt meirihluta sínum í Vestmannaeyjum og hefur fjóra fulltrúa. Vestmannaeyjalistinn fékk þrjá fulltrúa eins og í síðustu kosningum.

Meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar hélt í Sveitarfélaginu Skagafirði, Framsóknarflokkurinn hélt sínum fjórum fulltrúum og Samfylkingin sínum eina. Þar náði Frjálslyndi flokkurinn inn manni í bæjarstjórn, Sigurjóni Þórðarsyni, formanni flokksins, og er hann eini fulltrúi flokksins sem náði kjöri í sveitarstjórnakosningunum í gær. 

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt á Ísafirði. Þar fengu bæði Sjálfstæðisflokkur og Í-listi 4 menn kjörna og Framsóknarflokkur 1 mann.

Í Borgarbyggð féll meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem hefur starfað frá því vetur þegar slitnaði upp úr samstarfi allra framboða í sveitarfélaginu. Sjálfstæðisflokkur fékk nú 3 fulltrúa og hélt sínu, Framsóknarflokkur fékk 2, tapaði einum manni og Borgarbyggðarlistinn fékk 3.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Héraðslistans féll í Fljótsdalshéraði en þar tapaði Sjálfstæðisflokkurinn tveimur fulltrúum, fékk 1. Að sögn Austurgluggans hófust þegar í nótt þreifingar milli Framsóknarflokksins, sem fékk þrjá fulltrúa kjörna, og Héraðslistans, sem einnig fékk þrjá kjörna, um myndun nýs meirihluta. 

Í Norðurþingi  hélt meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks velli. Í Grindavík náði nýtt framboð, G-listinn, inn tveimur bæjarfulltrúum og Framsóknarflokkur bætti við sig manni og fékk þrjá. Á ýmsu gekk í sveitarstjórninni á síðasta kjörtímabili og voru nokkrir meirihlutar myndaðir en sá síðasti var myndaður af Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og VG.

Á Álftanesi hélt meirihluti Sjálfstæðisflokksins velli en hann var myndaður á miðju síðasta kjörtímabili.  Í Hveragerði hélt Sjálfstæðisflokkurinn einnig öruggum meirihluta í bæjarstjórninni.

Í Fjallabyggð  hélt meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þá hélt meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar í Hornafirði. 

Oddur Helgi Halldórsson, stofnandi og bæjarfulltrúi L-listans, faðmar Sigrúnu Björk …
Oddur Helgi Halldórsson, stofnandi og bæjarfulltrúi L-listans, faðmar Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, eftir að fyrstu tölur voru birtar í gærkvöldi. mbl.is/Skapti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert