Ekki „öðruvísi" Framsóknarflokk í Reykjavík

Formaður Framsóknarflokksins hefur eflaust sett x við B í borgarstjórnarkosningum, …
Formaður Framsóknarflokksins hefur eflaust sett x við B í borgarstjórnarkosningum, en það gerðu einungis 1.628 aðrir Reykvíkingar. Flokkurinn hlaut 2,7% atkvæða í höfuðborginni. Morgunblaðið/Kristinn

„Framsóknarflokkurinn á ekki að reyna að vera öðruvísi í Reykjavík en á landsbyggðinni," segir Sigumundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. Hann  telur að deilur um það hvernig framboðslistinn í Reykjavík varð til hafi haft áhrif á útkomuna í borginni.

„Það voru annars vegar þessar deilur og hins vegar gríðarleg áhrif Besta flokksins. Neikvæð umræða um svokallaða fjórflokka í Reykjavík varð til þess að þeir töpuðu allir. Við höfðum lítið upp á að hlaupa og máttum ekki við því að missa þessi þrjú prósent," segir Sigmundur Davíð.

Morgunblaðið hefur greint frá ásökunum Óskars Bergssonar um að Einar Skúlason hafi staðið óeðlilega að framboði sínu til oddvita og hefur gagnrýnt það hvernig staðið var að vali á framboðslista. Undir þá gagnrýni tók Guðni Ágústsson og sagði prófkjörið hafa verið „lokað og vitlaust."

Formaður Sambands ungra Framsóknarmanna, Bryndís Gunnlaugsdóttir, telur að Einar hafi einfaldlega átt sér fleiri stuðningsmenn og það hafi farið fyrir brjóstið á Óskari. Einar Skúlason sagði í Morgunblaðinu í dag að svo virtist sem Óskar hafi talið að hann yrði sjálfkjörinn. Einar vann oddvitasætið á kjörfundi í nóvember með 298 atkvæðum gegn 182 atkvæðum Óskars.

Skipti mér ekki af því hvernig valið var á lista

Sigmundur Davíð segist ekki hafa skipt sér af því hvernig það fór fram en að þær deilur sem nú hafa komið upp á yfirborðið um prófkjörið hafi verið ljósar frá upphafi. „Þetta var allt mjög mikið rætt innan flokksins á sínum tíma. en menn ákváðu að vera ekki að tala um það útávið til að skemma ekki fyrir möguleikum framboðsins,“ segir Sigmundur.

Spurður að því hvað hann telji að flokkurinn þurfi að gera til að ná upp fylgi í Reykjavík segir Sigmundur:

„Ég held að flokkurinn í Reykjavík þurfi að vera skipulagður meira eins og flokkurinn er úti á landsbyggðinni þar sem eru víða virk félög sem starfa saman sem öflug heild. Hvað stefnuna varðar þá þurfa menn að þora að standa á sínu, ekki reyna að vera öðruvísi Framsóknarflokkur í Reykjavík heldur en utan borgarinnar. Ég held að þessi miðjustefna eigi töluverðan hljómgrunn í Reykjavík ef menn þora að standa fast á henni," segir formaður Framsóknarflokksins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka