Ástþór: Útiloka ekki framboð

Ástþór Magnússon
Ástþór Magnússon Jim Smart

Athafnamaðurinn Ástþór Magnússon útilokar ekki framboð til forseta í vor, né heldur vill hann loka fyrir þann möguleika að baráttuhreyfing hans, Lýðræðishreyfingin, bjóði fram í komandi þingkosningum.

„Mér finnst þjóðin nú hafa tækifæri til þess að virkja Bessastaði á þann hátt sem ég talaði um fyrir sextán árum. Við hljótum að vilja sjá einhverjar breytingar á þjóðfélagsgerðinni eftir það sem er búið að ganga á. Ég minni á að fyrir sextán árum talaði ég um að það væri spilling innan stjórnsýslunnar. Ég benti á að skrifstofa forsetans væri í stjórnarráðinu og að ég byði mig fram til að hreinsa til. Þetta fór mjög illa í valdastéttina og það hófst mikil áróðurs- og undiralda á móti mér, í því skyni að gera mig tortryggilegan. Það fór illa í menn þegar ég benti á að kauphöllin væri spilavíti og að efnahagslegt hrun væri óumflýjanlegt. Það var ekkert gert og niðurstaðan er þetta mikla hrun.“

Spilling leiddi til efnahagshrunsins 

Ástþór heldur áfram.

„Hrunið varð vegna spillingar innan stjórnkerfisins og einkavinavæðingar í stjórnkerfinu. Þessi vandi er ekki bundinn við Ísland. Efnahagskerfi heimsins byggir að hluta til á sandi, peningaprentun í dollurum sem ekkert haldlegt er á bak við. Þegar ég sneri heim eftir ríflega áratugar dvöl erlendis sá ég glöggt í hvað stefndi á Íslandi. Það er hætt við að Íslendingar velji þægan forseta. Það þarf að stokka upp. Annars mun hrunið endurtaka sig.“

- En ætlarðu í framboð?

„Satt að segja vonast ég til að finna einhvern annan til þess. Þegar ég bauð mig fram árið 1996 leitaði ég fyrst að öðrum frambjóðenda en fór svo í slaginn sjálfur. Ég myndi vilja sjá frambjóðanda sem gæti tekið á þessum málum af alvöru. Það er ekki víst að sú leit beri árangur. Ég útiloka því ekki framboð.“

Kunna að bjóða fram til Alþingis 

- En hvað með baráttuhreyfingu þína, Lýðræðishreyfinguna? Kemur til greina að hún fari fram í næstu kosningum?

„Markmið hreyfingarinnar er að stuðla að beinu lýðræði á Íslandi. Við getum unnið í þágu þess markmiðs í samstarfi við aðra flokka. En ef það gengur ekki sem skyldi hljótum við að skoða framboð. Það er þó of snemmt að skera úr um það. Tíminn verður að leiða það í ljós,“ segir Ástþór og víkur að Lýðvarpinu, fyrrum útvarpsstöð Lýðræðishreyfingarinnar.

Undirbýr lögsókn

„Póst- og fjarskiptastofnun lokaði á stöðina og gekk þannig erinda hagsmunaafla. Við erum að undirbúa lögsókn gegn einstökum starfsmönnum stofnunarinnar. Markmiðið er að Lýðvarpið fari í loftið á ný. Við hljótum að stefna að því,“ segir Ástþór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert