Jón dregur framboðið til baka

Jón Lárusson
Jón Lárusson

Jón Lárusson, sem bauð sig fram til forseta Íslands, hefur dregið framboð sitt til baka. Ástæðuna segir Jón vera þá að hann hafi ekki náð að afla tilskilins fjölda meðmælenda. Hann segir fjölmiðla hafa ákveðið að framboðið væri ekki „alvöru“.

Skilafrestur listanna er nokkuð mismunandi eftir kjördæmum, en framboðum til forsetakjörs skal skila til innanríkisráðuneytisins fyrir miðnætti föstudaginn 25. maí.

Í tilkynningu sem Jón sendi frá sér vill hann skila þakklæti til þeirra sem settu nafn sitt við framboð hans.

„Sá tími sem liðinn er frá því að ég gaf kost á mér, hefur opinberað fyrir mér það sem ég í raun taldi mig vita, að þó við viljum meina að við séum öll jöfn, þá eru sumir jafnari en aðrir.“

„Sú ákvörðun fjölmiðla að framboð mitt væri ekki „alvöru“ og ætti því ekki erindi á borð þeirra hefur verið mikill dragbítur og vakning sem varð á framboði mínu eftir að fjölmiðlar neyddust til að taka tillit til þess hefur opinberað þessa staðreynd. Fjölmiðlar virðast hafa „ákveðið“ hvaða einstaklingar skulu vera í boði í næstu kosningum og sumir fjölmiðlar hafa jafnvel ákveðið hvor þeirra muni bera sigur úr býtum.

Kosningar eru alvörumál og því skiptir máli að við kynnum okkur vel þá einstaklinga sem eru í boði og hvað þeir standa fyrir og hafa gert. Við getum ekki treyst því að aðrir upplýsi okkur, heldur verðum við að gera það sjálf.

Í dag þurfum við forseta sem hefur þor til að standa með þjóðinni, en ekki forseta sem ætlar að horfa hlutlaus á þegar gengið er gegn hagsmunum okkar,“ segir í yfirlýsingu Jóns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert