Þingið teygir sig inn í baráttuna

mbl.is/Brynjar Gauti

Mikið hefur verið rætt um þinglok í fjölmiðlum landsins á síðustu dögum og þá hafa þingmenn deilt um það hvort störf Alþingis svona nálægt forsetakosningum skyggi á umræddar kosningar og hvort þau valdi því jafnvel að athygli kjósenda dreifist um of. Kosið er til forseta 30. júní, eftir 18 daga.

„Þetta er náttúrlega fordæmislaust, það er klárt mál. Þetta hefur svosem ekki gerst áður að þingið sitji svona lengi svo að menn hafa ekkert til að styðjast við um hvaða áhrif þetta hafi,“ segir Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af því að áframhaldandi þingseta skyggi á forsetakosningarnar og hafi jafnvel áhrif á kosningabaráttuna.

Að sögn Ara Trausta er það að einhverju leyti undir fjölmiðlum sjálfum komið hversu mikið pláss þeir láni þinginu og hversu mikið pláss þeir láni forsetakosningunum. „Auðvitað er ágætt að þessu fari að ljúka, en hvort við fáum eina eða tvær vikur í frí frá þinginu er erfitt að segja,“ segir Ari Trausti.

Segir þingmenn hljóta að geta komið sér saman um þinglok

„Í sjálfu sér hef ég ekki áhyggjur af því. Ég held að þingið þurfi svosem ekki mikið að þvælast fyrir þessum forsetakosningum,“ segir Þóra Arnórsdóttir forsetaframbjóðandi aðspurð hvort hún hafi áhyggjur af því að áframhaldandi seta þingsins skyggi á forsetakosningarnar, og bætir við: „Á hinn bóginn hefur það nú verið hefð að gefa þeim [forsetakosningunum] rými og þingið verið rofið fyrr og ætli menn hljóti ekki að geta komið sér saman um það.“

Spurð hvort hún telji að áframhaldandi seta þingsins geti mögulega dreift óþarflega athygli kjósenda segir Þóra að það fari allt eftir því hvað verði í gangi á þinginu, hvernig menn ætli að leysa úr þessum málum og hversu lengi það dragist.

„Það er ekkert við þessu að gera. Vonandi gengur þinginu vel,“ segir Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi spurð út í afstöðu sína í þessu máli.

Klári stórmál fyrir sumarfrí

„Ég var nú svo sem ekki búin að velta því neitt fyrir mér en þingið dregst náttúrlega allt of lengi,“ segir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir forsetaframbjóðandi spurð út í afstöðu sína til áframhaldandi setu þingsins samhliða forsetakosningum og hvort hún hafi áhyggjur af áhrifum þess á kosningarnar, og bætir við: „Ætli það sé ekki eðlilegt að þau taki sinn tíma til þess að afgreiða þau mál sem mikilvægt er að afgreiða áður en farið er í sumarfrí.“

Ekki náðist í Ólaf Ragnar Grímsson og Hannes Bjarnason við vinnslu fréttarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert