„Tími til kominn að stilla saman strengi“

„Ég hef mjög bjarta framtíðarsýn. Ég skynja ákveðin kaflaskil nú um stundir og það er ástæða þess að ég fór í þetta framboð. Ég tel að nú sé tækifæri til þess að draga lærdóm af reynslunni sem við höfum gengið í gegnum, ekki bara síðustu fjögur ár heldur til lengri tíma, og nýta hana í nýtt upphaf,“ segir Þóra Arnórsdóttir forsetaframbjóðandi.

Spurð hver aðkoma forseta Íslands að slíkri uppbyggingu sé segir Þóra að forsetinn eigi að styrkja hina andlegu innviði þjóðarinnar, ýta undir það að þjóðin ræði á hvaða gildum hún ætli að byggja samfélagið og hvernig andrúmsloft eigi að ríkja.

„Skoðunarskiptin eru svo mikilvæg, en tryggja þarf að reglur rökræðunnar séu virtar sem og sjónarmið annarra. Við erum sammála um svo margt og það er svo margt sem sameinar okkur, ekki bara saga, tungumál, menningararfur, náttúran og sameiginlegir hagsmunir sem eru vissulega ríkir, heldur einfaldlega viðhorfin. Mér finnst vera kominn tími til að stilla saman strengi,“ segir Þóra og tekur fram að þau gildi sem hún muni hafa að leiðarljósi í starfi sem forseti séu heiðarleiki, jafnrétti, frelsi, mannúð, lýðræði og kærleikur.

Að mati Þóru á forsetinn ekki að taka afstöðu í stórum pólitískum deilumálum. „Vegna þess að það samræmist ekki því að ætla sér að vera forseti allra Íslendinga. Um leið og hann gerir það þá fjarlægist hann þann hóp sem er honum ósammála og við þurfum ekki á því að halda. Það þýðir ekki að forsetinn eigi að vera skoðanalaus. Hann getur alltaf hvatt til upplýstrar og málefnalegrar umræðu, sama hversu stór málin eru. Ég lít svo á að meginvald forsetans sé áhrifavaldið. Hann hefur mikil áhrif með því sem hann segir og gerir, bæði innanlands og erlendis, og með því getur hann sett ákveðin mál á dagskrá.“

Þóra verður í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu um næstu helgi ásamt öðrum forsetaframbjóðendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert