Vinstribylgjan gengur til baka

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir mynduðu ríkisstjórn eftir að …
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir mynduðu ríkisstjórn eftir að hafa fengið samtals 51,5% atkvæða. Nú hafa Samfylking og VG tapað um helming að því fylgi sem þeir fengu 2009. mbl.is/Golli

Fyrstu tölur í þingkosningunum benda til að sú mikla vinstribylgja sem reis í síðustu kosningum hafi gengið til baka. Samfylking og VG fengu samtals 51,5% í þingkosningunum 2009, en nú er fylgi flokkanna komið niður í 25%. Tap Samfylkingarinnar er meira en VG.

Verði þetta niðurstaða kosninganna verður aðeins hægt að mynda eina tveggja flokka stjórn, þ.e. stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Önnur stjórnarmynstur kalla á að þrír eða fleiri flokkar komi að því að mynda stjórn.

Samfylkingin tapar meira en helming fylgi sínu

Miðað við þessar fyrstu tölur eru horfur á að hefðbundnu vinstriflokkarnir tveir fái ekki nema um fjórðung atkvæða. Fara þarf áratugi aftur í tímann til að finna jafnlítið fylgi vinstrimanna. Árið 1931 fengu Alþýðuflokkurinn og Kommúnistaflokkurinn samtals 18,7%. En í öllum þingkosningum sem síðan hafa farið fram hafa vinstriflokkarnir (sem síðar hétu Sósíalistaflokkur, Alþýðubandalag, VG og Samfylking) alltaf fengið yfir 25% atkvæða. Hlutfallið var lægst árið 1995, eða 25,7%, en það ár bauð Þjóðvaki Jóhönnu Sigurðardóttur til  þings og fékk 7,2%.

Samfylkingin er, samkvæmt þessum fyrstu tölum að fá um 13% atkvæða og er búin að tapa meira en helming af því fylgi sem flokkurinn fékk árið 2009. Þetta er langversta útkoma flokksins frá stofnun hans. Ef horft er til fylgis Alþýðuflokksins (forvera Samfylkingarinnar) þarf að fara aftur til ársins 1995, þegar flokkurinn klofnaði, til að finna verri útkomu.

VG er ekki að tapa eins miklu fylgi og honum var spáð í upphafi kosningabaráttunnar, en tap flokksins er samt yfir 40%. Í upphafi kosningabaráttunnar leit út fyrir að flokkurin byði afhroð og formaður flokksins talaði um að það væri raunveruleg hætta á að flokkurinn næði ekki mönnum á þing.

Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra VG, og fleiri sem stóðu framarlega í flokksstarfinu buðu fram undir merkjum Regnbogans, en framboðið er að fá mjög lítið fylgi.

Framsókn bætir mestu við sig

Framsóknarflokkurinn er ótvíræður sigurvegari þessara kosninga. Flokkurinn er að fá um 50% meira fylgi en í síðustu kosningum. Þetta er svipað fylgi og flokkurinn fékk 1979 og 1995. Sé horft til síðustu 30 ára eru þessi úrslit góð fyrir framsóknarmenn. Fyrir 1974 var Framsóknarflokkurinn hins vegar oftar en ekki með yfir 24% fylgi.

Framsóknarflokkurinn er að bæta miklu við sig í öllum kjördæmum. Stundum hefur flokkurinn bætt við sig í landsbyggðarkjördæmum þegar líður á talninguna, en þá er farið að telja atkvæði úr sveitunum þar sem flokkurinn er með nokkuð traust fylgi.

Næstverstu kosningar Sjálfstæðisflokksins

Í kosningunum 2009 fór fylgi Sjálfstæðisflokksins úr 36,6% í 23,7%. Hann tapaði því um 35,2% af fylgi sínu. Hann er að bæta við sig 2-3 prósentustigu frá síðustu kosningum.

Sjálfstæðismenn geta tæplega verið ánægðir með þessi úrslit. Miðað við þessar tölur er flokkurinn að fá næstverstu útkomu frá stofnun flokksins. Aðeins við úrslitin 2009 fékk flokkurinn verri útkomu. Hann er þannig að fá verri útkomu en árið 1987 þegar hann fékk 27,2%, en hafa verður í huga að þá klofnaði flokkurinn þegar Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn.

Sé horft til sögunnar hefðu sjálfstæðismenn mátt reikna með að fá 33-38% fylgi, ekki  síst sé horft til þess að setið hefur að völdum ríkisstjórn sem hefur verið afar óvinsæl, ekki síst  á seinni hluta kjörtímabilsins. Það þarf hins vegar að hafa í huga að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa aldrei áður verið saman í stjórnarandstöðu og kjósendur höfðu því það val að láta óánægju sína með stjórnarflokkana í ljós með því að kjósa einhvern annan stjórnarandstöðuflokk en Sjálfstæðisflokkinn.

Þó sjálfstæðismenn hafi vænst þess að fá meira fylgi er mikilvægt fyrir flokkinn að vera á ný orðinn stærsti flokkur landsins, eins og hann hefur verið í nær öllum kosningum frá stofnun flokksins.

Úrslitin þýða einnig að ríkisstjórnin er fallin. Það hefur ekki gerst síðan 1987 að ríkisstjórn falli í kosningum. 1987 bauð Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar sig fram sem varð til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll.

Fjórflokkurinn með 74% fylgi

Þessar fyrstu tölur benda til að um 74% kjósenda hafi kosið fjórflokkinn svokallaða (Framsóknarflokk, Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu og VG). Þetta er lægsta hlutfall frá því að flokkakerfið varð til hér á landi. Aðeins einu sinni áður hefur fjórflokkurinn fengið eins lélega útkomu, en það var í kosningunum 1987, en þá bauð Borgaraflokkur Albert Guðmundssonar fram og Kvennalistinn fékk þá einnig sína bestu kosningu.

Léleg útkoma fjórflokksins skýrist að nokkru leyti af fjölda nýrra framboða. Í þessum kosningum buðu 11 flokkar fram á landsvísu og fjögur önnur framboð buðu fram í einstökum kjördæmum. Aldrei áður hafa framboðin verið eins mörg. Næstflest voru þau 1991 þegar 8 flokkar buðu fram á landsvísu og 3 önnur framboð buðu fram.

Í sveitarstjórnarkosningunum 2010 sýndu kjósendur mikið vantraust í garð fjórflokksins, en þá unnu ný framboð stórsigur í Reykjavík og Akureyri. Kosningaúrslitin nú benda því til að stór hluti kjósenda sé óánægður með þá flokka sem farið hafa með stjórn landsins síðustu áratugina. Óánægjan er meiri en í kosningunum 2009 þegar 90% kjósenda greiddi þessum fjórum flokkum atkvæði.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, bætir mestu við sig í …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, bætir mestu við sig í þessum kosningum. Ljósmynd/Austurfrétt
Sjálfstæðisflokkurinn er að bæta við sig frá síðustu kosningum, en …
Sjálfstæðisflokkurinn er að bæta við sig frá síðustu kosningum, en nær þó ekki yfir 30% markið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, greiðir atkvæði í morgun. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert