Ætlar að ræða við alla formenn

„Ég hef ákveðið að fela formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að reyna myndun nýrrar ríkisstjórnar,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, en hann boðaði Sigmund Davíð til fundar við sig í morgun.

Sigmundur Davíð sagði að hann myndi byrja á því að ræða við formenn allra flokka sem fengu menn kjörna á Alþingi. Hann sagðist í framhaldi af því taka ákvörðun um með hvaða flokki hann myndi hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

„Ég mun í dag byrja á því að heyra afstöðu formanna þeirra flokka sem fengu menn kjörna á Alþingi til þeirra úrlausnarefna sem samfélagið stendur frammi fyrir og kannski ekki síst þeirra lausna sem framsóknarmenn hafa boðað og urðu tilefni mikilla umræðna í aðdraganda kosninganna. Það skiptir verulegu málið að hugsanlegir samstarfsflokkar í ríkisstjórn séu reiðubúnir að vinna að lausn þessara mála með okkur. Við teljum okkur hafa lagt fram skýrar leiðir til þess. Við erum að sjálfsögðu opin fyrir tillögum varðandi útfærslur, en teljum algjörlega nauðsynlegt að bregðast við þeirri miklu þörf sem er til staðar, og er vaxandi, til að rétta stöðu íslenskra heimila; koma til móts við skuldsett heimili sem hafa beðið úrlausna í 3-5 ár.

Til þess að ná þessu mun ég byggja þessar viðræður við formenn flokkanna og mun síðan taka afstöðu til þess með hverjum er rétt að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Sögulegur sigur Framsóknarflokksins“

Ólafur Ragnar sagði að ákvörðun um að fela Sigmundi Davíð stjórnarmyndunarumboð væri byggt á þremur atriðum. Í fyrsta lagi að tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, fengu mest fylgi í kosningunum og báðir fengu 19 menn kjörna. Í öðru lagi að fylgisaukning Framsóknarflokksins var mest og „á vissan hátt söguleg“ og í þriðja lagi byggði hann ákvörðun sína á samtölum við formenn flokkanna í gær.

Ræddi lengi við forsetann

Fundur Sigmundar Davíðs og Ólafs Ragnars stóð í tæpan hálftíma. Að fundinum loknum ræddu þeir stuttlega við blaðamenn. Þeir settust síðan aftur á fund um kl. 12:05 og ræddu saman góða stund. Þeim fundi lauk klukkan 12:40.

Ólafur Ragnar ræddi í gær við alla formenn flokkanna sem fengu mann kjörinn á þing, en á fundunum var fjallað um þá stöðu sem er upp eftir úrslit alþingiskosningarnar 27. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert