Sex ekki komnir með aðstoðarmenn

Flestir ráðherra í nýrri ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hafa ekki valið sér aðstoðarmenn. Þrír ráðherrar eru komnir með aðstoðarmenn en hinir sex hafa hins vegar ekki gengið frá þeim málum.

„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um þetta. Maður er bara fyrst að koma sér inn í málin og þegar tími gefst í það þá geng ég frá þessu,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, í samtali við mbl.is. Í sama streng taka þau Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

„Þetta liggur ekki fyrir, ekki hjá mér, en gerist væntanlega á næstu dögum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, og Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, hafa sömuleiðis ekki hafa gengið frá þeim málum en Eygló sagðist reikna með að gera það næstkomandi mánudag.

Jóhannes Þór Skúlason verður Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, áfram til aðstoðar og sama á við um Svanhildi Hólm Valsdóttur sem áfram mun verða Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, innan handar. Þá verður Þórey Vilhjálmsdóttir aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, en hún var áður framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert