Bjartsýnn og sér sóknarfæri víða

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. Kristinn Ingvarsson

„Þrátt fyrir slæma niðurstöðu í Pisa þá er margt gott í okkar skólakerfi. Við gerum margt mjög vel. Til dæmis skiptir það verulegu máli að krökkunum líði vel í skólanum og að einelti hafi minnkað, eins og rannsóknir sýna. Aftur á móti eigum við ekki að hugsa eins og það sé einhvers konar val á milli þess að líða vel í skóla og að ná góðum tökum á námsefninu. Við hljótum að vilja bæði að börnunum okkar líði vel og að þeim gangi vel í náminu,“ segir Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.

Þetta segir Illugi í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Viðtalið er hluti ítarlegrar umfjöllunar blaðsins um málefni grunnskólanna, sem birt hefur verið undanfarna daga. Í dag er rætt við fólk úr ýmsum áttum um hvar sóknarfærin liggi í íslenska grunnskólakerfinu.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að gerð hvítbókar í ráðuneytinu þar sem m.a. er lögð áhersla á aðgerðir til að bæta árangur í lestri. Til stendur að kynna hvítbókina síðar í þessum mánuði og Illugi segir að horfa þurfi á skólakerfið í heild, en ekki einblína á einstök skólastig. Slök lestrarkunnátta í lok grunnskóla sé hluti skýringar þess mikla brottfalls sem er úr framhaldsskólum hér á landi.

„Aðgerðir til að efla læsi hafa mikið að segja um hvernig okkur tekst til í framhaldsskólunum. Við þurfum líka að auka sveigjanleika á öllum skólastigum og meira samstarf á milli þeirra þannig að þeir nemendur sem eru félagslega og námslega tilbúin til að fara á undan fái tækifæri til þess.“

Umræðan einskorðast við Pisa

Illugi segist vilja sjá aukna og markvissari umræðu um skóla- og menntamál hér á landi. Hún einskorðist gjarnan við niðurstöður rannsókna á borð við Pisa eða um kaup og kjör kennara og sé þá stundum neikvæð. „Umræðan er gjarnan á þann veg að allir eru sammála um að menntamál skipti máli, það þurfi að leggja á þau áherslu og svo framvegis. En þegar kemur að því að ræða þau af meiri dýpt, þætti eins og námskrá, kennslutilhögun og kennaranámið, þá dregur úr áhuganum.“

Rétt ákvörðun að lengja kennaranámið

Þú talar um kennaranámið. Það var lengt úr þremur árum í þrjú fyrir nokkrum árum. Var rétt að lengja þetta nám? „Já, ég tel að það séu ágætis rök fyrir því að námið sé fimm ár. En við þurfum að spyrja okkur hvernig best sé að undirbúa kennara, t.d. fyrir lestrarkennslu eða stærðfræðikennslu. Kannski erum við að gera allt rétt í þessu sambandi. En þegar við stöndum frammi fyrir því að 30% drengja og 14% stúlkna fara í gegnum tíu vetra grunnskólanám án þess að læra nægilega vel að lesa þá verðum við að spyrja okkur um alla þætti skólastarfsins; allt frá því hvernig kennarar eru menntaðir og til þess hvernig nemendur eru prófaðir. Þetta er það sem við erum að leggja grunn að í hvítbókarvinnunni.“

Laun kennara þyrftu að vera hærri

Aðsókn í kennaranám hefur minnkað talsvert eftir að námið var lengt. Kennarasambandið hefur bent á að skólarnir séu ekki samkeppnishæfir í launum. Eru laun kennara of lág? „Laun kennara þyrftu að vera hærri á öllum skólastigum. Það segir sig sjálft að það er nauðsynlegt til þess að skólarnir verði betur samkeppnishæfir varðandi fólk.“ Nú eru samningar Félags grunnskólakennara lausir og kjarasamningar framhaldsskólakennara renna út um næstu mánaðarmót. Hyggstu beita þér fyrir því að kjör kennara verði leiðrétt í komandi kjarasamningum? „Ég er þeirrar skoðunar að átak þurfi til varðandi laun kennara en að sjálfsögðu markast svigrúmið af því sem gerist á almenna markaðnum og af stöðu ríkissjóðs.“

Huga þarf að agamálum

Grunnskólakennarar hafa vakið máls á því að verkefni grunnskólanna séu orðin of mörg. Að sum þeirra hafi lítið með nám og kennslu að gera og vegna þeirra sé of lítið svigrúm til að sinna kennslu. Þarf að endurskoða starfssvið grunnskólakennara?  „Það er ein af þeim spurningum sem ég myndi vilja opna á. Við þurfum m.a. að skoða hversu mörgum kennslustundum við verjum til að kenna grunnfærni í yngstu bekkjunum. En við megum ekki tala þannig um skólann að hann verði eingöngu einhvers konar færniskóli. Við getum heldur ekki sætt okkur við að svo margir ljúki grunnskóla án grunnfærni eins og síðasta Pisa-rannsókn sýnir, það ætti að vera undantekning.“

„Í þessu sambandi þurfum við að huga að þeim úrræðum sem kennarar hafa varðandi agamál. Agamál í grunnskólum eru áhyggjuefni og ég heyri hjá mörgum kennurum að þeim finnist þeir hafa fá úrræði til að taka á erfiðum málum.“

Stendur til að fjölga þessum úrræðum? „Við þurfum að skoða það, en það er ljóst að þau eru takmörkuð. Vissulega er það svo að hjá miklum meirihluta barna er þessi þáttur í góðu lagi. En það þarf bara einn erfiðan nemenda til að eyðileggja starfið í kennslustofunni og kennarar þurfa að geta brugðist við því þannig að þeim gefist kostur að skapa þær vinnuaðstæður sem þarf fyrir nemendurna,“ segir Illugi og bætir við:

„Ég er þeirrar skoðunar að það sé algjörlega útilokað að ætlast til þess að skólinn ali upp börn eins og umræðan gefur stundum til kynna og það er ekki hægt að krefjast þess af kennurum að þeir taki ábyrgð á því hvort börn búa yfir aga. Þau eiga fyrst og síðast að læra það heima hjá sér. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er flókið mál, en grunninn verður að leggja á heimilunum. Skólinn er kennslu- og menntastofnun og tekur ekki frá okkur foreldrunum það hlutverk að ala upp börnin. Ég hef áhyggjur af því að það sé verið að ætla skólanum of víðtækt hlutverk að þessu leyti.“

Bjartsýnn á þróunina

Illugi er bjartsýnn á þróun grunnskólans og telur að víða séu sóknarfæri. „Vellíðan barna í skólanum hefur aukist og dregið hefur úr einelti. Það er góður grundvöllur fyrir sókn í skólamálum. Unnið hefur verið markvisst að því að bæta þessa þætti með langtímahugsun að leiðarljósi og ég er sannfærður um að við getum gert það sama varðandi læsi og annað nám. Við erum með tiltölulega sveigjanlegt skólakerfi og sú aukna áhersla sem hefur verið á skapandi greinar hefur verið af hinu góða. En það verður að fara saman við grundvallarfærni og getur ekki komið í staðinn fyrir hana. Sóknarfæri felst t.d. í því að ná góðu jafnvægi þarna á milli.“

Undirbúningur fyrir líf og störf á 21. öldinni

Að mati Illuga eru miklar breytingar framundan í öllu skólastarfi, ekki síst vegna tækniþróunar. „Möguleikar varðandi kennslugögn og kennsluaðferðir eru allt aðrir en voru fyrir nokkrum árum  síðan. Þessar nýjungar eru auðvitað engin allsherjarlausn, en eru til marks um þær breytingar sem orðið hafa,“ segir Illugi.

„Skóli 20. aldarinnar undirbýr fólk ekki undir líf og störf á þeirri 21. og börn sem nú eru í grunnskóla munu lifa og starfa í samfélagi sem við höfum litla hugmynd um hvernig verður. Kennslan þarf að taka mið af þessu og við þurfum að tryggja grundvallarhæfni þannig að fólk geti aflað sér þekkingar, unnið úr henni og skapað nýja þekkingu. Þegar við horfum til baka undanfarna áratugi þá sjáum við að við höfum gert margt rétt í skólamálum. Vandamálin sem birtast í Pisa eru alvöru vandamál sem við verðum að horfast í augu við en á sama tíma megum við ekki horfa framhjá öllu því góða sem gert er og hefur áunnist í grunnskólakerfinu og við getum verið stolt af. Ég er bjartsýnn á þróun grunnskólans og ég held að hér séu allar aðstæður til þess að íslenskir skólar verði afburðaskólar.“

Úr skólastarfi.
Úr skólastarfi. Þorkell Þorkelsson
Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson. Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert