Spyrja frambjóðendur spjörunum úr

Hitt húsið er staðsett í Pósthússtræti 3-5.
Hitt húsið er staðsett í Pósthússtræti 3-5.

Mánudaginn 26. maí heldur Reykjavíkurráð ungmenna kosningafund fyrir ungmenni með frambjóðendum flokka til borgarstjórnarkosninga 2014. Frambjóðendur fá tækifæri til að kynna sig og stefnumál sín fyrir ungu fólki og gefst ungu fólki í Reykjavík tækifæri á að spyrja frambjóðendur spjörunum úr.

Fundurinn verður haldinn í upplýsingamiðstöð Hins hússins, Pósthússtræti 3-5, og opnar húsið klukkan 19, en fundurinn hefst klukkan 19:30.

Í tilkynningu segir að markmið fundarins sé að gera stjórnmál og stefnumál flokkanna aðgengilegri fyrir ungt fólk og gefa ungu fólki tækifæri á að spyrja frambjóðendur spjörunum úr.

Markmið með starfsemi Reykjavíkurráðs ungmenna er meðal annars að skapa vettvang og leiðir til þess að gera þeim sem eru yngri en 18 ára kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við viðeigandi aðila og að þjálfast í lýðræðislegum vinnubrögðum.

Í starfi sínu í vetur sem og síðastliðin ár hafa ungmennaráð fjallað um málefni ungs fólks og tekið þátt í ýmsum verkefnum sem fulltrúar ungs fólks í Reykjavík. Reykjavíkurráð ungmenna er jafnframt samráðsvettvangur allra ungmennaráða sem starfa í borginni, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert