Óboðlegt fyrirkomulag utan kjörfundar

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir fyrirkomulagið í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni vegna komandi sveitarstjórnarkosninga ekki vera boðlegt. Hvergi í kjörklefanum megi finna upplýsingar um listabókstafi framboðanna og til að rugla fólk enn meira í ríminu sé búið að raða upp stimplum með öllum bókstöfum stafrófsins.

Karl greiddi atkvæði utankjörfundar í Kópavogi í morgun.

„Þetta er þannig að þú færð tómt blað sem þú hefur með þér inn í kjörklefann og þar er búið að raða upp fullt af stimplum. Hver stimpill er með einn bókstaf á sér,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Hins vegar eru engar upplýsingar í kjörklefanum um hvaða flokkur stendur á bak við hvern bókstaf. Þeir hengja ekki upp neina lista, til dæmis þess efnis að Sjálfstæðisflokkurinn sé með listabókstafinn D, Framsóknarflokkurinn B og svo framvegis,“ bætir hann við.

Erfitt fyrir ný og lítið þekkt framboð

„Síðan raða þeir upp alveg helling af stimplum með alls konar bókstöfum, öllu stafrófinu, og er ætlast til þess að fólk muni nákvæmlega hvaða bókstafur á við þann flokk sem það vill kjósa.

Það finnst mér algjörlega fáránlegt,“ segir hann.

Hann nefnir sem dæmi að mikið sé af nýjum framboðum og því sé ekki hægt að ætlast til þess að kjósendur muni nákvæmlega hvaða bókstafur á við hvert framboð.

„Þannig að ég skil ekki af hverju í ósköpunum þeir geta ekki hengt upp að minnsta kosti lista með nöfnum á flokkum og framboðum og síðan tilgreint hvaða bókstafur á við viðkomandi framboð. Það eru lágmarksupplýsingar sem þurfa að vera fyrir fólk á kjörstað. Mér finnst þetta vera algjörlega fyrir neðan allar hellur,“ segir Karl.

Hann segist hafa spurst fyrir um þetta á kjörstað en ekki fengið nein svör.

„Það er allt í lagi að stimpla bókstafi á eitthvert blað. Ég geri engar sérstakar athugasemdir við það. En það þurfa hins vegar að hanga uppi upplýsingar um hvaða bókstafir eiga við hvern flokk. Annað er engan veginn boðlegt í kosningum.“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert