Framgangan „Íslandsmet í yfirlæti“

Brynjar Níelsson alþingismaður.
Brynjar Níelsson alþingismaður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Mikið var ömurlegt að hlusta á suma frambjóðendur Samfylkingar og Vg í kjölfar kosninganna tala um að Framsókn væri ekki stjórntækur flokkur vegna afstöðu oddvitans til lóðaúthlutunar til trúarsafnaðar múslima. Þetta er kannski ekki heimsmet í yfirlæti en að minnsta kosti Íslandsmet og sennilega Norðurlandamet einnig.“

Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag vegna ummæla Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknarflokksins og flugvallarvina, í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík þess efnis að afturkalla ætti lóð undir mosku Félags múslima á Íslandi og leggja málið í dóm borgarbúa. Miklar umræður urðu um málið í aðdraganda kosninganna.

„Og þetta er mikið til sama fólkið og fannst alveg fráleitt að rússneska rétttrúnaðarkirkjan fengi lóð vegna afstöðu til samkynhneigðar og að einstaka kristnir predikar fengju yfirhöfuð að koma til landsins vegna afstöðu sinnar til samlífs sama fólks. Svo ég tali nú ekki um fólk sem stundar ekki þóknanlega atvinnu,“ segir Brynjar. Hann bætir við að þar sem hann sé „maður frelsisins“ telji hann að allir eigi að fá að byggja sér þak yfir höfuðið. Líka þeir sem honum þyki „uppfullir að röngum og skaðlegum viðhorfum.“

„Það fylgir nefnilega böggull skammrifi að búa í frjálsu samfélagi. Ég held að fulltrúar "góðu flokkanna" ættu að huga að því. Og þegar betur er að gáð sýnist mér oddviti Framsóknar ekki komast með tærnar þar sem "góða fólkið" hefur hælana þegar kemur að ofstæki og öfgafullum viðbrögðum og fyrirlitningu gagnvart skoðunum annarra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert