Ekki hægt að verða við beiðni Pírata

Frá Hafnarfirði.
Frá Hafnarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki verður orðið við beiðni Pírata um endurtalningu allra atkvæða í Hafnarfirði vegna sveitarstjórnarkosninganna síðastliðinn laugardag. Þetta er niðurstaða yfirkjörstjórnar Hafnarfjarðar sem fundaði um beiðnina í morgun.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá yfirkjörstjórninni að farið hafi verið fram á endurtalningu allra atkvæða og þar með talið endurúrskurð varðandi atkvæði sem úrskurðuð voru ógild af kjörstjórn við talningu. Bent er hins vegar á að kjörstjórn hafi úrskurðað um gildi slíkra atkvæða við lok talningar án athugasemda fyrir utan eitt atkvæði sem Píratar hefðu mótmælt úrskurði á. Það atkvæði hafi hins vegar ekki fallið þeim í skaut. Þá hafi niðurstaða talningarinnar verið kynnt og bókuð án athugasemda frá umboðsmönnum framboða.

Vakin er athygli á því að í lögum um kosningar til sveitarstjórnar sé ekki að finna heimild fyrir kjörstjórn til að endurtelja og endurúrskurða um vafaatkvæði eftir að niðurstaða kosninga hefur verið kunngjörð og bókuð án athugasemda umboðsmanna. „Í ljósi framangreinds telur kjörstjórn ekki grundvöll fyrir því að verða við fyrirliggjandi beiðni Pírata.“

Frétt mbl.is: Ekki í boði að telja allt aftur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert