Vilja endurtalningu á Akranesi

Akraneskaupstaður
Akraneskaupstaður

Vinstrihreyfingin – grænt framboð á Akranesi hefur óskað eftir því að atkvæði sveitarstjórnarkosninganna verði endurtalin, þar sem aðeins þurfi sjö atkvæði til þess að niðurstaða kosninganna breytist.

Þegar atkvæði höfðu verið talin á Akranesi aðfaranótt 1. júní sl. kom í ljós að Rakel Óskarsdóttir, 5. maður á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi, hafði 267,2 atkvæði á bak við sig en Þröstur Ólafsson, 1. maður á lista VG, hafði 261 atkvæði og komst því ekki í bæjarstjórn.

Eftir að skekkja kom í ljós við endurtalningu atkvæða í Hafnarfirði í liðinni viku ákváðu VG á Akranesi að óska einnig eftir endurtalningu, því flokkurinn þyrfti aðeins að fá sjö atkvæði umfram Sjálfstæðisflokk til að niðurstaða kosninganna breyttist og oddvitinn kæmist inn.

Fram kemur á fréttavef Skessuhorns að VG á Akranesi hafi afhent formanni kjörstjórnar þar, Einari Ólafssyni, beiðni um endurtalningu á laugardaginn. Einar mun kalla kjörstjórnina saman til fundar eftir hvítasunnuhelgina, en hann segist auk þess í samtali við Skessuhorn þurfa að leita lögfræðilegrar aðstoðar til að ákveða næstu skref.

Sjá nánar á Skessuhorn.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert