Segir Ólaf Ragnar meðvirkan

Elísabet Jökulsdóttir, rithöfundur og forsetaframbjóðandi.
Elísabet Jökulsdóttir, rithöfundur og forsetaframbjóðandi. Photo: mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Elísabet Jökulsdóttir, forsetaframbjóðandi, segir Ólaf Ragnar Grímsson vera meðvirkan, bæði með sjálfum sér og þjóðinni.

„Ég hélt að hann væri smekklegri en þetta. Að það skuli þurfa að vera hér einhver bjargvættur. Að hann skuli notfæra sér það að fólk hafi verið að mótmæla á Austurvelli og segja að hann þurfi að hafa hemil á þessu fólki og að það þurfi að stilla hér til friðar. Mér finnst þetta vera ofbeldi. Þetta er eins og karl sem heldur að konan sín geti ekki fengið fullnægingu án hans,“ segir Elísabet, spurð út í ákvörðun Ólafs Ragnars um að bjóða sig aftur fram til embættis forseta Íslands.

Fólk sem skammast sín fyrir Sigmund Davíð

„Ég hef verið að vekja athygli á því í minni kosningabaráttu að það er ofboðslegur alkóhólismi hér og meðvirkni. Þegar fólk skammast sín fyrir eitthvað sem Sigmundur Davíð gerði, þá er það sama einkenni og hjá fullorðnum börnum alkóhólista. Þetta þykir ekki fínt í umræðunni en fyrr eða síðar verður það að vera smart,“ bætir hún við.

Ætlar að stofna mæðraveldi 

Elísabet segist annars lítið kippa sér upp við ákvörðun Ólafs, enda sé hún upptekin við að vaska upp og fara út með hundana. Hún segist hafa safnað 20 undirskriftum á göngu sinni með hundana í dag hjá fólki sem var óánægt með ákvörðun Ólafs.

Á sunnudaginn ætlar hún að stofna mæðraveldi og einnig ætlar hún að halda fyrirlestur á næstunni þar sem hún mun kynna nýja sýn sína á náttúru Íslands. Hún heldur jafnframt úti Facebook-síðu þar sem hún kynnir framboð sitt, auk þess sem hún hittir fólk á förnum vegi og ræðir við það.

Frétt mbl.is: Vill þjóðbraut á Bessastaði

Ólafur Ragnar Grímsson á blaðamannfundinum í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson á blaðamannfundinum í dag. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert