Fjölbreyttur ferill forsetans

Ólafur Ragnar á Alþingi á 9. áratug síðustu aldar.
Ólafur Ragnar á Alþingi á 9. áratug síðustu aldar.

Væntanlega hefur ekki farið framhjá mörgum að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur ákveðið að gefa áfram kost á sér í embættið. Þá ákvörðun tilkynnti hann á blaðamannafundi í gær en áður hafði hann sagt í áramótaávarpi sínu að hann ætlaði að láta af embættinu í kjölfar forsetakosninganna sem fyrirhugaðar eru í sumar.

Ólafur Ragnar var fyrst kjörinn forseti lýðveldisins árið 1996 og hefur því gegnt embættinu í tvo áratugi. Fyrir þann tíma var átti hann að baki feril í stjórnmálum sem bæði þingmaður og ráðherra. Ólafur fæddist 14. maí árið 1943 á Ísafirði, sonur hjónanna Gríms Kristgeirssonar og Svanhildar Ólafsdóttur Hjartar. Hann stundaði nám við MR og síðan Háskólann í Manchester á Englandi þaðan sem hann lauk doktorsprófi 1970.

Fyrstu afskipti Ólafs Ragnars af stjórnmálum voru innan Framsóknarflokksins. Hann sat þannig til að mynda í miðstjórn flokksins 1967-1974 og í framkvæmdastjórn hans 1969-1973. Þaðan fór Ólafur yfir í Samtök frjálslyndra og vinstri manna og var formaður framkvæmdastjórnar flokksins 1974–1976 og loks til Alþýðubandalagsins þar sem hann sat í miðstjórn og framkvæmdastjórn frá 1977. Hann var formaður flokksins 1987–1995.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veifar af svölum Alþingishússins ásamt …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, veifar af svölum Alþingishússins ásamt Dorrit konu sinni eftir að hafa verið settur í forsetaembættið í fjórða sinn 2008. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Ólafur Ragnar var fyrst kjörinn á Alþingi árið 1978 fyrir Alþýðubandalagið fyrir Reykjavík og sat til 1983. Ólafur var aftur kjörinn á þing 1991 sem þingmaður Reykjaness og sat til 1996 þegar hann lét af þingmennsku eftir að hafa verið kjörinn forseti. Ólafur var fjármálaráðherra 1988–1991 í ríkisstjórnum undir forsæti Steingríms Hermannssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins.

Ólafur Ragnar var fyrsti prófessor Háskóla Íslands í stjórnmálafræði en hann gegndi þeirri stöðu frá 1973-1993. Áður var hann lektor í stjórnmálafræði við skólann frá 1970-1973. Hann kvæntist Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur árið 1974 en hún lést árið 1998. Saman áttu þau dæturnar Döllu og Guðrúnu Tinnu. Árið 2003 gekk hann að eiga núverandi eiginkonu sína Dorrit Moussaieff.

Ólafur þótti umdeildur sem fjármálaráðherra en hann gegndi því embætti þegar ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar var ískyggilegt. Var hann af þeim sökum til að mynda sýndur í gervi Leðurblökumannsins (Batman) í áramótaskaupinu 1989 undir nafninu Skattmann. Með tilkomu Viðeyjarstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins 1991 lenti Ólafur og Alþýðubandalagið í stjórnarandstöðu og heyrðist þá viðkvæðið „Við alþýðubandalagsmenn...“ einatt í ræðum hans á Alþingi sem Spaugstofan notaði síðan óspart þegar Pálmi Gestsson brá sér í gervi Ólafs.

Þegar Ólafur Ragnar bauð sig fram í forsetakosningunum 1996 voru birtar heilsíðuauglýsingar í dagblöðum gegn honum þar sem hann var gagnrýndur fyrir verk sín sem fjármálaráðherra. Þær virtust þó ekki hafa mikil áhrif en Ólafur sigraði í kosningunum með 41,4% atkvæða. Pétur Kr. Hafstein hlaut 29,5%, Guðrún Agnarsdóttir 26,4% og Ástþór Magnússon 2,7%.

Ólafur sagði meðal annars aðspurður í kosningabaráttunni að hann teldi 2-3 kjörtímabil hæfilega langan tíma fyrir forseta í heimi hraðra breytinga nyti hann stuðnings til þess. Sextán ár væru langur tími þó bæði Vigdís Finnbogadóttir og Ásgeir Ásgeirsson hefðu setið svo lengi. Ekki mætti þó gleyma því að þjóðin hefði stutt Vigdísi til svo langrar embættissetu og hefði eflaust stutt hana lengur hefði vilji hennar staðið til þess.

Ólafur Ragnar þótti fljótlega gera forsetaembættið pólitískara en það hafði að minnsta kosti verið áður bæði í tíð Vigdísar Finnbogadóttur og Kristjáns Eldjárns. Þetta þótti mörgum ná ákveðnu hámarki þegar hann neitaði að undirrita lög um fjölmiðla árið 2004. Var þar með svonefndur málskotsréttur forsetans virkjaður í fyrsta sinn og átti málið í framhaldinu að fara í þjóðaratkvæði en ríkisstjórnin dró það áður til baka. Urðu miklar umræður um það hvort forsetinn hefði raunverulega rétt á því án aðkomu ráðherra að neita að undirrita lög frá Alþingi.

Ólafur Ragnar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.
Ólafur Ragnar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.

Þegar útrás íslenskra fyrirtækja stóð sem hæst var Ólafur gagnrýndur talsvert fyrir að veita slíkum fyrirtækjum full mikinn stuðning. Var hann fyrir vikið af sumum kallaður klappstýra útrásarvíkinganna. Sú gagnrýni varð þó mest eftir fall íslensku bankanna haustið 2008. Ólafur Ragnar átti síðan eftir að leika lykilhlutverk í Icesave-málinu og vísaði hann tvisvar lögum frá Alþingi um samninga við bresk og hollensk stjórnvöld í þjóðaratkvæði þar sem samningnum var hafnað. Þá talaði hann ítrekað við erlenda fjölmiðla þar sem hann varði þær niðurstöður.

Þegar líða fór að forsetakosningunum 2012 veltu margir fyrir sér hvort Ólafur myndi láta af embætti eða gefa áfram kost á sér. Þá hafði hann setið í 16 ár í embætti eða jafnlengi og þeir forsetar sem lengst sátu. Í áramótaávarpi sínu tilkynnt Ólafur að hann ætlaði ekki að gefa áfram kost á sér en mörgum þótti yfirlýsing hans ekki mjög afgerandi í þeim efnum. Hafin var undirskriftasöfnun í kjölfarið þar sem skorað var á Ólaf að bjóða sig aftur fram og fór svo að hann tilkynnti að hann hefði skipt um skoðun í þessum efnum.

Þá höfðu meðal annars Þóra Arnórsdóttir og Ari Trausti Guðmundsson tilkynnt forsetaframboð. Kosningarnar urðu að eins konar einvígi Ólafs og Þóru og hafði hún í fyrstu meira fylgi samkvæmt skoðanakönnunum. Að lokum fór svo að Ólafur hlaut 52,7% atkvæða og Þóra 33,16%. Ólafur sagði fyrir kosningarnar að hugsanlega ætti hann eftir að hætta á miðju kjörtímabili en breytta afstöðu sína til þess að gefa áfram kost á sér rökstuddi hann með því að óvissa væri um ýmis stór mál eins og Icesave-málið og umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Svo fór þó að Ólafur sat áfram og sér nú fyrir endann á kjörtímabilinu. Hvort Ólafur verður áfram forseti er hins vegar í höndum kjósenda.

Forsetaframbjóðandinn Ólafur Ragnar Grímsson og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, eiginkona hans …
Forsetaframbjóðandinn Ólafur Ragnar Grímsson og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, eiginkona hans 1996. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert