Hefði kannski ekki þurft tilhlaupið

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og forsetaframbjóðandi.
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og forsetaframbjóðandi. mbl.is/Golli

Guðni Th. Jóhannesson segist hiklaust geta sýnt sama hugrekki og Ólafur Ragnar Grímsson gerði þegar hann vísaði Icesave-samningum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Kannski þyrfti hann ekki tilhlaup með fyrsta Icesave-samningum eins og Ólafur Ragnar gerði á sínum tíma.

Í viðtali í sjónvarpþættinum Eyjunni á Stöð 2 var rifjað upp viðtal við Guðna sem birtist í blaðinu Grapevine árið 2009 þar sem hann sagðist ekki viss um hvort að hann myndi samþykkja eða hafna Icesave-samningum og ekki vilja vera í stöðu ráðamanna.

Guðni sagðist þar hafa verið að tala um embættismenn og ráðamenn sem voru í geysierfiðri stöðu og hlutskipti þeirra væri ekki öfundsvert. Ekki mætti stjaksetja þá fyrir ákvarðanir sem þeir tækju.

Af þeim þremur forsetaframbjóðendum sem eru nú mest til umræðu, hann sjálfur, Ólafur Ragnar og Davíð Oddsson, þá hafi hann sjálfur á þessum tíma verið sagnfræðingur sem var tekinn í viðtal yfir kaffibolla hjá Grapevine, Davíð hafi verið brottrekinn formaður bankastjórnar Seðlabankans og Ólafur Ragnar forseti Íslands. Ef menn vildu rýna í ábyrgð manna þá ætti ekki að skipa honum á sama bekk og þeim Davíð og Ólafi Ragnari.

Benti Guðni á að Ólafur hafi tekið þá veigamiklu ákvörðun að skrifa undir fyrsta Icesave-samninginn. Hann hafi verið í þeirri stöðu að þurfa að meta hvort það væri illskásti kosturinn fyrir Ísland og hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að svo væri. Ólafur Ragnar hafi litið svo á að best væri að ganga að því sem menn kalli nú afarkosti.

Þáttastjórnandinn, Björn Ingi Hrafnsson, spurði Guðna þá hvort að hann gæti sýnt sama hugrekki og Ólafur Ragnar hafi sýnt þegar hann vísaði Icesave-samningum númer tvö og þrjú í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Hiklaust,“ svaraði Guðni þá.

„Kannski þyrfti ég ekki þetta tilhlaup með Icesave 1,“ bætti hann við.

Í öðru sæti á eftir meistaranum

Guðni var einnig spurður út í gagnrýni Ólafs Ragnars á hann í viðtölum við fjölmiðla í gær. Í viðtali við mbl.is sagði forsetinn Guðna hafa sett „sagnfræðilegt met“ með því að gagnrýna aðra frambjóðendur við upphaf framboðs síns.

Brást Guðni við því með að lesa úr frétt sem skrifuð var í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar árið 2012 þar sem Ólafur Ragnar var sagður hafa gagnrýnt harðlega framboð Þóru Arnórsdóttur við upphaf framboðs síns. Sagðist Guðni því að minnsta kosti ekki vera fyrsti forsetaframbjóðandinn til að gagnrýna aðra frambjóðendur.

„Ég er þá í öðru sæti á eftir meistaranum,“ sagði Guðni kíminn.

Þá þvertók hann fyrir að hafa gagnrýnt Andra Snæ Magnason. Hann hafi aðeins vakið máls á því til að hnykkja á sinni eigin sýn á forsetaembættið að líta mætti svo á að þeir sem hefðu ákveðinn og skýran málstað sem þeir berðust fyrir ættu allt eins að bjóða sig fram til Alþingis.

Andra Snæ sagði hann hugsjónir holdi klæddar og hann ætti hrós skilið fyrir baráttu sína fyrir umhverfisvernd. Andri mætti allt eins láta að sér kveða í þingkosningum í haust nái hann ekki kjöri sem forseti.

„Nei, nei, nei, nei“

Mikil umfjöllun hefur verið undanfarna daga um tengsl íslenskra ráðamanna við aflandsfélög. Guðni var meðal annars spurður að því hvort að umfjöllun um meint tengsl Dorritar Moussaief, eiginkonu Ólafs Ragnars, hafi veikt stöðu forsetans.

„Hún er að minnsta kosti ekki sterkari skulum við segja,“ sagði Guðni.

Björn Ingi spurði hann þá að því hvort að hann sjálfur ætti aflandsfélög eða fé í skattaskjölum og neitaði Guðni því. Eins var hann spurður út í það hvort að eiginkona hans eða fjölskylda hennar hefðu tengsl við aflandsfélög eða skattaskjól.

Sagðist Guðni ekki vel inni í fjármálum hennar. Tengdarfaðir hans væri stundakennari í enskum bókmenntum og tengdamóðirin heimavinnandi húsmóðir og fyrrum barnfóstra en hann leyfði sér að svara spurningunni með orðunum:

„Nei, nei, nei, nei,“ og vísaði hann þar greinilega til svars Ólafs Ragnar árið 2012 þegar hann var spurður hvort að hann myndi nota sömu rök nú og hann gerði þá til að sækjast eftir endurkjöri og við spurningu CNN um hvort eitthvað myndi koma í ljós um tengsl hans eða fjölskyldu hans við aflandsfélög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert