89 manns hafa kosið nýjan forseta

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hófst 30. apríl síðastliðinn, 8 vikum fyrir …
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hófst 30. apríl síðastliðinn, 8 vikum fyrir kjördag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna forsetakosninganna sem fram fara 25. júní næstkomandi hófst 30. apríl síðastliðinn. Frestur til að skila inn framboði til forseta rennur hins vegar ekki út fyrr en á miðnætti 20. maí.

Miðað við fregnir af forsetaframbjóðendum síðustu vikur má líklega draga þá ályktun að endanlegur frambjóðendalisti liggi ekki fyrr en 21. maí, en þá rennur út frestur frambjóðenda til að skila nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningabærir.

Nú þegar hafa 89 manns greitt atkvæði utan kjörfundar, samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þar af eru 57 á höfuðborgarsvæðinu og 32 á landsbyggðinni og í sendiráðum erlendis.

Að sögn Bryndísar Bachmann, lögfræðingi hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar rólega af stað fyrstu vikurnar líkt og áður.

„Þetta er voða svipað eins og fyrir fjórum árum, en síðustu dagana sem utankjörfundaratkvæðagreiðslan fer fram eru að koma alveg upp í 3000 manns og yfir það, hér á höfuðborgarsvæðinu, og það er meira í forsetakosningum en öðrum kosningum. Fólk er farið í frí og kýs á fimmtudegi eða föstudegi á leið sinni út úr bænum.“

Hægt að kjósa oftar en einu sinni

Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu, segir þá staðreynd að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefjist áður en framboðsfrestur renni út komi almenningi alltaf jafn mikið á óvart fyrir hverjar kosningar.

„Þessi regla um að utankjörfundur geti hafist að minnsta kosti átta vikum fyrir kjördag er lagaákvæði í öllum kosningum sem fara fram hér á landi. Þetta eru lög sem við búum við um kosningafyrirkomulag og þessi þáttur kosningalaganna hefur aldrei verið endurskoðaður, einhverra hluta vegna,“ segir Stefanía.

Hún segir að mikilvægt sé að fólk sem nýti sér atkvæðagreiðslu utan kjörfundar geri sér grein fyrir því að hægt er að breyta atkvæði sínu fram á kjördag.

„Þú getur alltaf farið og breytt atkvæði þínu, það er alltaf hægt að kjósa aftur og þá verður fyrra atkvæði ógilt. Það er því hægt að kjósa nokkrum sinnum utan kjörfundar og það er síðasta atkvæðið sem gildir.“  

Auður kjörseðill í kosningu utan kjörfundar

Kjörseðill í utankjörfundaratkvæðagreiðslu er alltaf auður, ólíkt kjörseðli á kjördag sem inniheldur lista yfir frambjóðendur sem hægt er að haka við.

Í atkvæðagreiðslu utan kjörfundar ritar kjósandi nafn þess sem hann hyggst kjósa. Það er óhjákvæmilegt fyrirkomulag þar sem frambjóðendur hafa ekki skilað inn meðmælendalistum þegar atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst.

Þeir sem hyggjast nýta sér þann möguleika að kjósa utan kjörfundar geta kynnt sér fyrirkomulagið á vefnum kosning.is, þar má meðal annars finna þetta myndband:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert