Þurfa að skila meðmælum á morgun

Bessastaðir. Skarðsheiði í baksýn
Bessastaðir. Skarðsheiði í baksýn Ómar Óskarsson

Á morgun munu yfirkjörstjórnir taka á móti undirskriftum meðmælenda væntanlegra forsetaframbjóðenda. Hver og einn þarf að skila að minnsta kosti 1.500 undirskriftum úr öllum landsfjórðungum. Hægt er að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands til 21. maí næstkomandi.

Á annan tug manns eru í framboði en líklegt verður að teljast að ekki nái allir að safna nógu mörgum gildum undirskriftum. Mæli kjósandi með fleiri en einum frambjóðanda verður nafn hans fjarlægt af báðum eða öllum listum.

Yfirkjörstjórnir Reykjavíkurkjördæma norður og suður taka á móti listum með undirskriftum í Ráðhúsi Reykjavíkur eftir hádegi á morgun. Í Suðvesturkjördæmi verður tekið á móti listum í íþróttahúsinu Kaplakrika í Hafnarfirði eftir hádegi og í Suðurkjördæmi verður tekið á móti meðmælum í dómsal Héraðsdóms Suðurlands á sama tíma.

Fleiri dagsetningar

20. maí 
Framboðsfrestur rennur út um miðnætti. Framboðum skal skilað til innanríkisráðuneytisins ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningabærir.

27. maí
Innanríkisráðuneytið auglýsir í útvarpi og Lögbirtingablaði hverjir verða í kjöri eigi síðar en þennan dag eftir að hafa afhent Hæstarétti Íslands öll fram komin framboðsgögn.

4. júní
Atkvæðagreiðsla má hefjast í sjúkrahúsum, fangelsum, á dvalarheimilum aldraðra og fatlaðs fólks og í heimahúsum fyrir kjósendur vegna sjúkdóma, fötlunar og barnsburðar. Kjörstjórar á hverjum stað auglýsa sérstaklega hvar og hvenær atkvæðagreiðsla fer fram.

4. júní
Viðmiðunardagur kjörskrár. Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag, 4. júní. Flutningur lögheimilis eftir þann tíma breytir ekki skráningu á kjörskrá.

13. júní
Innanríkisráðuneytið auglýsir, eigi síðar en þennan dag, framlagningu kjörskráa í Ríkisútvarpi og dagblöðum. 

15. júní 
Sveitarstjórnir skulu leggja kjörskrár fram almenningi til sýnis á skrifstofu sinni eða á öðrum hentugum stað eigi síðar en þennan dag. Kjörskrá skal liggja frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags.

25. júní
Kjördagur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert