Kostnaður við framboðin afar misjafn

Skjáskot úr útsendingunni á Facebook.
Skjáskot úr útsendingunni á Facebook. Skjáskot/ facebook.com/reykjavikmedia/

Mikill munur er á áætluðum kostnaði forsetaframbjóðenda við kosningabaráttuna. Þannig hefur Sturla Jónsson notað um 300 þúsund krónur í framboð sitt en kostnaður við framboð Guðna Th. Jóhannessonar er „örugglega“ yfir 10 milljónum.

Átta af níu frambjóðendum greindu frá kostnaði og fjármögnun framboða sinna í kapp­ræðum Reykja­vík Media og Stund­ar­inn­ar, sem fram fóru í Gafl­ara­leik­hús­inu í kvöld, en svörin voru þó misnákvæm.

 Kapp­ræðurn­ar voru send­ar út í beinni út­send­ingu í gegn­um Face­book og tóku þau Halla Tóm­as­dótt­ir, Elísa­bet Jök­uls­dótt­ir, Andri Snær Magna­son, Sturla Jóns­son, Ástþór Magnús­son, Hild­ur Þórðardótt­ir, Guðrún Mar­grét Páls­dótt­ir og Guðni Th. Jó­hann­es­son þátt.

Í upphafi útsendingarinnar var tekið fram að Davíð Oddsson hefði ákveðið að þekkjast ekki boð um þátttöku.

Facebook-vinir og listamenn

Elísabet Jökulsdóttir var fyrst til að svara fyrstu spurningu kvöldsins en sú sneri að kostnaði og fjármögnun auk þess sem spurt var hvort frambjóðendur myndu opna bókhaldið að kosningunum yfirstöðnum.

Sagðist Elísabet telja að hún hefði fengið 200 til 300 þúsund krónur í styrki og það aðallega frá Facebook-vinum sínum og jafnvel „fólki sem hún þekkti ekki neitt“. Tók hún fram að það væri dýrara en hún hefði haldið að kaupa auglýsingar í sjónvarpi vegna framboðsins og því hefði hún snarlega hætt við slíkar áætlanir.

Andri sagði frambjóðendum bera skylda til að opna bókhaldið eftir kosningar og að raunar lægi nær að opna það fyrir kosningarnar. Framboð hans hefði verið með tvo starfsmenn í tvo mánuði og í því fælist nokkur kostnaður. Hans helstu styrktaraðilar væru Edda Heiðrún Backman, sem hélt málverkauppboð til styrktar framboðinu, og svo tónlistarmenn sem gáfu vinnu í „nokkur skemmtileg kvöld á [skemmtistaðnum] Húrra.“ Sagði hann kosningabaráttu sína þannig keyrða áfram á velvilja fjölskyldu og vina.

Fjölskyldumyndataka og Dale Carnagie

Guðrún Margrét sagðist telja að kostnaður við framboð hennar væri undir milljón, taldi hún upp fjölskyldumyndatöku og Dale Carnagie-námskeið sem stóra kostnaðarliði en tók fram að hún hefði þó fengið endurgreiðslu frá VR vegna þess. Sagðist hún fjármagna framboðið sjálf en þó hafa þegið eina gjöf, bæklinga frá Gunnari Eggertssyni pappírsheildsala.

Ástþór sagðist ekki hafa tekið við neinum fjárframlögum og ekki hafa tekið saman neitt um kostnað sinn við framboðið. Kvaðst hann vinna það sem til þyrfti að mestu leyti sjálfur en að sjálfboðaliðar hefðu hjálpað við einstök verkefni. Kostnaður væri því í mjög miklu lágmarki.

Guðni sagði framboð sitt fjármagnað eftir lögum og reglum, með frjálsum framlögum fyrirtækja og einstaklinga. Bókhaldið yrði gert opinbert í samræmi við lög og reglur. Guðni sagði framboðið kostnaðarsamt, meðal annars sökum ferðakostnaðar og launaðra starfsmanna, en að reynt væri að halda kostnaði í lágmarki og að eins taki ótrúlegur fjöldi sjálfboðaliða þátt í starfinu.

„Með því að sýna ráðdeild er hægt að gera margt fyrir það fé sem dettur inn,“ sagði Guðni.

„Það verður engin bók í ár“

Hildur kvaðst hafa fengið einstakan stuðning frá fjölskyldu og vinum. Kostnaðurinn við framboð hennar væri undir milljón og mestmegnis fjármagnaður úr bókasjóði hennar, sem hún notaði til útgáfu bóka sinna. „Það verður engin bók í ár,“ sagði Hildur og brosti. Sagði hún mestu hafa eytt í gerð myndbands fyrir RÚV.

Sturla sagðist hafa fengið styrki frá bróður móður sinnar.  Hann hefði notað „kannski um 300 þúsund kall en af því eru jakkafötin hérna fyrir 100 þúsund.“ Þá sagðist hann notast við Toyota-bifreið af árgerð ´98 sem eyði „6,9 á hundraðið“.

Síðust í röðinni var Halla sem sagðist ekki vera með nákvæma tölu yfir útlagðan kostnað. Það væru þó „einhverjar milljónir“ sem hún og maður hennar hefðu lagt til sjálf af eigin sparnaði þótt þau hefðu þegið einhver framlög í takt við lög og reglur. Sagði hún framboðið langmest unnið í sjálfboðavinnu en að það væri þó kostnaðarsamara en hún hefði talið þegar hún ákvað fyrst að bjóða sig fram.

„Af því að við vorum svo ráðdeildarsamar í Auði Capital þá hvarf ekki mitt litla sparifé í hruninu en ég hef gengið töluvert meira á það en ég ætlaði.“

10, 20, 15 milljónir?

Síðar í útsendingunni voru nokkrir frambjóðendur spurðir aftur út í peningamál, bæði sem viðkomu framboðunum beint og persónuleg fjármál.

Guðni var beðinn um að gefa upp nákvæmari hugmynd um kostnað við framboð sitt. Svaraði hann því til að kostnaðurinn hlypi á milljónum en að hann vissi þó ekki nákvæma tölu. Gekk þá Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir harðar að honum.

Ingibjörg: „10?“

Guðni: „Örugglega.“

Ingibjörg: „20?“

Guðni: „Nei.“

Ingibjörg: „15?“

Guðni: „Ég veit það ekki.“

Guðrún Margrét var síðan spurð um þær staðhæfingar sínar að hún hafi starfað við mannúðarstörf launalaust í 23 ár, á hverju hefði hún lifað. Svaraði Guðrún því til að hún hafi lifað á eiginmanni sínum, sem sé tryggingaráðgjafi. Var hún einnig beðin um að skýra íbúðarfjárfestingar þeirra hjóna.

„Það var tekið lán til að kaupa litla blokk sem var ófrágengin sem var svo bara gerð upp og seld aftur, borgað lánið og við eigum þarna hálfa íbúð,“ svaraði Guðrún sem sagði kaupin fjármögnuð með lántöku að langmestu leyti.

Þá var Ástþór spurður um atvinnu sína. Kvaðst hann eiga fyrirtæki sem sæi um bílainnflutning og hefði um árabil flutt bíla til Íslands frá Bandaríkjunum og Evrópu og eins frá Bandaríkjunum til Evrópu. Þá hefði hann unnið við ljósmyndun og sem ráðgjafi við greiðslugáttir á netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert