Vel gekk að ferja mannskapinn heim

Stuðningsmenn íslenska liðsins í stúkum Stade de France á sunnudagskvöld.
Stuðningsmenn íslenska liðsins í stúkum Stade de France á sunnudagskvöld. AFP

„Það hefur verið brjálað að gera í langan tíma,“ segir Lúðvík Arnarsson hjá ferðaskrifstofunni Vita.

Hann segir óhætt að segja að starfsfólk skrifstofunnar hafi lagt nótt við nýtan dag til þess að koma fólki á leiki íslenska karlalandsliðsins og aftur heim og voru til dæmis þrjár vélar á vegum skrifstofunnar á leiðinni heim í gær. „Þetta hefur gengið vel að langmestu leyti,“ segir Lúðvík. Hann segist ekki eiga von á miklum áhuga á undanúrslita- eða úrslitaleikjunum, nú þegar Ísland hefur lokið þátttöku. „Við fylgjum bara Íslandi.“

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir sömuleiðis að vel hafi gengið um helgina. „Það voru um 1.400 manns sem fóru með okkur á föstudag, laugardag og á sunnudagsmorgninum,“ segir hún og bætir við að flugfélagið hafi bætt við tveimur aukavélum í gær til þess að ferja fólkið heim, auk þess sem margir kjósi að koma síðar í vikunni.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að allt hafi gengið vonum framar í tengslum við EM, ekkert sérstakt komið upp á og engar sérstakar tafir á vélum félagsins. „Það gengur vel að koma mannskapnum heim,“ segir Guðjón, en flogið var nánast allan daginn frá París heim til Keflavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert