Þorgerður og Þorsteinn til liðs við Viðreisn

Þorsteinn Pálsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætla bæði fram fyrir …
Þorsteinn Pálsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætla bæði fram fyrir Viðreisn. mbl.is/samsett mynd

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra, hefur tilkynnt um framboð sitt fyrir Viðreisn. Þetta kemur fram í tísti hjá henni á Twitter. Tekur hún einnig fram að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, ætli að ganga til liðs við Viðreisn.

Í samtali við mbl.is staðfestir Þorsteinn að Þorgerður ætli í framboð fyrir flokkinn, en að hann muni einnig ganga til liðs við Viðreisn, en þó ekki fara í framboð.

Spurður um ástæður þess að hann gangi til liðs við Viðreisn segir Þorsteinn að þar hafi myndast frjálslynt stjórnmálaafl sem horfi til viðskiptafrelsis og vestrænnar samvinnu. Það séu grundvallarhugmyndir sem stjórnmálalegar ákvarðanir byggist á og hann haldi í heiðri.

Segir Þorsteinn að á þessum vettvangi sé tækifæri til að vinna að framgangi ýmissa mála fyrir hönd Íslands.

Stór ákvörðun

Hann segir að eðlilega hafi það verið stór ákvörðun sem ekki sé tekin umhugsunarlaust að ganga til liðs við nýjan flokk og segja skilið við Sjálfstæðisflokkinn sem hann hafi verið í undanfarna áratugi. „En mál hafa þróast svona,“ segir hann.

„Ég sé tækifærin þarna og tel að það sé til góðs fyrir landið að Viðreisn fái stuðning,“ segir Þorsteinn, „með fullri virðingu fyrir mínum gömlu félögum, fyrrverandi samstarfsmönnum og forystu flokksins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert