Boðað til kosninga 29. október

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra tilkynnti við upphaf þingfundar á Alþingi í dag að þing verði rofið 29. október og boðað til kosninga sama dag. Sigurður Ingi las upp forsetabréf þessa efnis en hann fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, fyrr í dag.

Stjórnarandstæðingar tóku til máls og fögnuðu þingrofstillögu forsætisráðherra. Rifjuðu þeir upp tildrög þess að ákveðið var að flýta þingkosningum. Það hefði gerst í kjölfar birtingar Panama-skjalanna og afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra sem hefði ekki sagt satt frá eignum í skattaskjólum. Það hefði enn fremur átt við fleiri ráðherra.

„Það var lengi dregið að koma með skýra afstöðu til þess hvenær þær kosningar ættu að vera, sem var ekki heldur traustvekjandi fyrir stjórnmálin í heild. En það er fagnaðarefni að þessi dagsetning hafi verið sett, hvað sem hverjum kann að finnast um hana, og ég er ánægð með að þessi tillaga sé komin fram þannig að hægt sé að fara að undirbúa kosningar með eðlilegum hætti,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði snarpa kosningabaráttu fram undan næstu vikurnar sem hún vonaði að yrði hressandi og málefnaleg. Stjórnmálamenn gengju til kosninga til þess að laða fólk að þeim flokkum og þeim áherslum og hugmyndafræði sem þeir stæðu fyrir. það væri síðan kjósenda að velja og senda skýr skilaboð til flokkanna hverjir þeir vildu að skipuðu næstu ríkisstjórn.

„Virðum rétt kjósenda til að kjósa, til að velja á milli hugmyndafræðinnar og líka til þess að fá að segja sitt um menn og málefni í aðdraganda kosninga án þess að við stjórnmálamenn hlaupum upp til handa og fóta og köllum aðra heldur en þá sem eru sammála okkur, ég nota bara svona þægilegt orð, kjána eða einhvern sem ekkert veit, vegna þess að fólkið í landinu veit hvað það vill,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert