Bagalegt fyrir kjósendur

Bergþóra Sigmundsdóttir, sviðsstjóri hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.
Bergþóra Sigmundsdóttir, sviðsstjóri hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Nú hafa 114 manns greitt atkvæði utan kjörfundar á landinu öllu fyrir alþingiskosningarnar sem eiga að fara fram 29. október. Atkvæðagreiðslan hófst á miðvikudag en sem fyrri ár er enn nokkuð í að framboðsfrestur renni út. Sviðsstjóri hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu segir fyrirkomulagið bagalegt fyrir kjósendur.

Frestur til að skila inn framboðslistum til yfirkjörstjórnar rennur ekki út fyrir en föstudaginn 14. október. Bergþóra Sigmundsdóttir, sviðsstjóri hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem annast utankjörfundaratkvæðagreiðsluna, segir þetta fyrirkomulag hafa verið við lýði frá því á 9. áratug síðustu aldar. Þá hafi framboðsfresturinn verið færður nær kjördegi.

„Þetta er mjög bagalegt fyrir kjósendur sem koma og ætla að kjósa hjá okkur því þeir eiga erfitt með að átta sig á hverjir eru í framboði,“ segir Bergþóra.

Starfsmenn sýslumanns hafi engar upplýsingar um framboðin og geti ekki gefið neinar til kjósenda enda liggja þær ekki formlega fyrir. Þá segir hún stimpla með listabókstöfum til fyrir framboðin en ekki sé hægt að nota þá fyrr en framboðsfresturinn sé liðinn.

„Þetta hindrar kannski aðeins þá sem koma með ný framboð því þeir eru ekki með þessa þekktu stafi,“ segir Bergþóra.

Það hafi verið upp úr 2009 sem byrjaði að örla á óánægju fólks með þetta fyrirkomulag. Bergþóra segir að minna hafi verið um það áður því þá hafi verið færri ný framboð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert