Allt hægt ef fólk er reiðubúið til málamiðlunar

Karl Tómasson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.
Karl Tómasson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Ljósmynd/Aðsend

„Fyrir mér snýst þátttaka í stjórnmálum um að koma sjónarmiðum og hugsjónum ekki einungis á framfæri heldur í verk og það gerir maður helst í meirihluta og þá þarf að hafa þann þroska til að bera að vera sanngjarn og heiðarlegur og kunna að miðla málum,“ segir Karl Tómasson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.

Þessum hugrenningum greindi Karl fyrst frá á Facebook-síðu sinni í dag. Sjálfur hefur hann setið í bæjarstjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins í þrjú kjörtímabil í Mosfellsbæ.

„Ég tel að pólitík og  það að taka þátt í pólitík snúist ekki einungis um það að tjá skoðanir sínar og hugsjónir og hvað maður vill og hverju sé komið í verk heldur hlýtur maður að vilja koma því í verk. Til þess er leikurinn gerður, að hafa áhrif,“ segir Karl.

Snýst um málamiðlanir 

Karl starfaði í um átta ár sem forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar fyrir Vinstri græna og telur að besta leiðin til að ná árangri sé að vera í meirihluta samstarfi. Hann segir að samstarf snúist um heilindi og það að vera samvinnufús og reiðubúin að miðla málum. „Þú getur ekkert ætlast til þess, hvorki í stjórnmálum né í sambúð við maka þinn að þín sjónarmið séu alltaf bara þau sem komist og eigi að komast í gegn, heldur þarf að komast að málamiðlunum. Ég held að öll sambönd, hvers lags sambönd sem það eru, endist best ef fólk kemst að samkomulagi. Það gerir maður ekki með því að vera fastur fyrir bara á sínu  heldur einnig með því að skoða aðrar hliðar á málinu.“

Þá segir Karl að það að vera eftirgefanlegur sé ekki endilega samasemmerki um það að vera tapari. Hann segir samstarf Vinstri grænna og Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ hafa verið afar farsælt og sýni að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Eitt farsælasta sveitarstjórnarsamstarf á landinu 

Karl deildi þessum hugrenningum á Facebook-síðu sinni en færsluna má sjá hér að neðan:

„Smá hugleiðingar frá gömlum rokkara, bókbindara, bæjarstjórnarmanni, bílasala og nú bílstjóra.

Í fyrstu vil ég óska þeim flokkum sem unnu sigra í nýafstöðnum kosningum til hamingju þeir eru klárlega nokkrir, enginn vafi leikur á því.

Ljóst má vera að vel yfir helmingur þjóðarinnar kýs vinstriþenkjandi flokka og rís fylgi Vinstri grænna þar hæst. Vinstri græn hafa nú í brátt tvo áratugi staðið vaktina í umhverfismálum og jafnrétti í allri sinni mynd og er nú greinilega best treystandi allra vinstriafla til að standa þann vörð.

Í Mosfellsbæ komust Vinstri græn í fyrsta skipti frá stofnun flokksins í meirihlutasamstarf undir eigin merki. Nú brátt þremur kjörtímabilum síðar er hann enn í þeirri stöðu í Mosfellsbæ að vera í meirihluta. Á sama tíma hafa meirihlutar úti um allt land úr öllum mögulegum flokkum gefist upp á samstarfi sökum þess að fólk hefur ekki getað unnið saman og haft þroska til að ná málamiðlunum.

Meirihlutasamstarfið í Mosfellsbæ sem er nú sennilega orðið eitt það elsta á landinu er skipað Vinstri grænum og Sjálfstæðismönnum. Flokkarnir og fólkið sem þá skipa hafa átt afar gott samstarf og náð að miðla málum af þroska og sanngirni.

Sennilega eru einir erfiðustu tímar lífs míns þegar ég ásamt félögum mínum tók þá ákvörðun að fara í samstarf með Sjálfstæðismönnum. Það var ekki ákvarðarinnar vegna heldur vegna þeirrar heiftúðlegu umræðu sem kom í kjölfarið og ótrúlegs persónuníðs í minn garð, ekki einungis í Mosfellsbæ, heldur úti um allt land, í fölmiðlum og á alþingi. Rödd Samfylkingarinnar var þar drjúg.

Í dag dettur nú einhverra hluta vegna fáum í hug að agnúast út í þetta samstarf í Mosfellsbæ a.m.k ekki á opinberum vettvangi.

Fyrir mér snýst þátttaka í stjórnmálum um að koma sjónarmiðum og hugsjónum ekki einungis á framfæri heldur í verk og það gerir maður helst í meirihluta og þá þarf að hafa þann þroska til að bera að vera sanngjarn og heiðarlegur og kunna að miðla málum.

Ég hafði góða reynslu af því í Mosfellsbæ með góðu fólki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert