Engin meirihlutastjórn án Sjálfstæðisflokksins

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Hvernig verður næsta ríkisstjórn samansett? Þetta er stóra spurningin í stjórnmálunum þessa dagana. Engan veginn er ljóst hver niðurstaðan kann að verða. Forystumenn þeirra stjórnmálaflokka sem fengu fulltrúa kjörna á Alþingi funduðu með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í gær. Forsetinn hyggst ræða áfram við forystumennina í dag á óformlegri nótum áður en hann tekur ákvörðun um það hverjum hann veitir umboð til myndunar næstu ríkisstjórnar landsins. Það er engan veginn ljóst heldur.

Hins vegar hafa málin skýrst nokkuð. Sú ákvörðun Samfylkingarinnar að gefa ekki kost á sér í ríkisstjórn þýðir að hugmyndir um fimm flokka stjórn Pírata, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar eru ekki raunhæfar. Þingstyrk allra flokkanna þarf til að ná meirihluta. Slík stjórn hefði 34 þingmenn. Minnihlutastjórn er því aðeins möguleg án þátttöku Sjálfstæðisflokksins. Píratar hafa lagt til að VG, Viðreisn og Björt framtíð myndi slíka stjórn með stuðningi Pírata og Samfylkingarinnar.

Minnihlutastjórnir alger undantekning

Nær engin hefð er fyrir minnihlutastjórnum á Íslandi þótt dæmi séu um þær. Síðast var slík ríkisstjórn í raun formlega við völd hér á landi undir lok kjörtímabilsins 2009-2013 þegar stjórn Samfylkingarinnar og VG hafði misst nokkra þingmenn úr sínum röðum og hafði minnihluta þingmanna á bak við sig. Stjórnin reiddi sig þá ekki síst á stuðning þingmanna Hreyfingarinnar, þar á meðal Birgittu Jónsdóttur, núverandi þingmann Pírata. Píratar vilja nú verja minnihlutastjórn falli með sama hætti og Hreyfingin gerði á sínum tíma.

Minnihlutastjórn VG, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefði samtals á bak við sig 21 þingmann, sem er sami fjöldi og Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn. Að lágmarki þarf 32 þingmenn til þess að hafa meirihluta á þingi, en þar eru samtals 63 þingsæti. Miðað við söguna má ætla að æskilegt þyki að reynt verði til þrautar að mynda meirihlutastjórn áður en opnað verði á myndun minnihlutastjórnar. Slíkar stjórnir hafa verið algengar til að mynda í Noregi og Danmörku og hafa þá verið háðar stuðningi þingmanna annarra flokka.

Fimm þriggja flokka meirihlutar mögulegir

Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn hafa útilokað að vinna saman og Viðreisn er ekki reiðubúin í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn saman. Þá virðist sem Píratar séu ekki mjög uppveðraðir yfir þeim möguleika að taka sæti í ríkisstjórn þótt þeir útiloki það ekki. Hvaða möguleikar eru þá í stöðunni til að mynda meirihlutastjórn? Hér eru taldar upp mögulegar þriggja flokka ríkisstjórnir, en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, talar um það í bréfi til sjálfstæðismanna í dag að flokkurinn gæti myndað slíka stjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn + VG + Framsóknarflokkurinn = 39 þingmenn

Sjálfstæðisflokkurinn + VG + Viðreisn = 38 þingmenn

Sjálfstæðisflokkurinn + VG + Björt framtíð = 35 þingmenn

Sjálfstæðisflokkurinn + Framsóknarflokkurinn + Björt framtíð = 33 þingmenn

Sjálfstæðisflokkurinn + Viðreisn + Björt framtíð = 32 þingmenn

Fjögurra flokka ríkisstjórn VG, Viðreisnar, Framsóknarflokksins og Bjartrar framtíðar hefði aðeins 29 þingmenn. Sem fyrr segir hafa Píratar útilokað allt samstarf við fráfarandi stjórnarflokka. Þetta ítrekaði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður flokksins, í samtali við fjölmiðla á Bessastöðum í gær. Ekki yrði hvikað frá því. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefur einnig ítrekað að flokkur hans muni ekki ganga inn í núverandi stjórnarsamstarf. Þá hyggst Samfylkingin, sem áður segir, ekki eg efa kost á sér til setu í ríkisstjórn.

Þetta þýðir einfaldlega að við þessar aðstæður verður ekki mynduð ríkisstjórn með meirihluta á Alþingi án þátttöku Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert